Leikaðferðir eins og símanúmer

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

„Ég er svekktur,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 3:1-tap liðsins gegn Val í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld.

„Mér fannst við mjög góðir í þessum leik og þetta er einn albesti leikur sem liðið hefur spilað undir minni stjórn. Mér fannst við stjórna leiknum frá fyrstu mínútu sem er kannski skrítið að segja þegar maður tapar 1:3 en mörkin þeirra koma nánast upp úr engu. Á sama tíma sköpuðu þeir sér lítið sem ekkert en það er þannig í fótbolta að þegar þú nýtir ekki færin þín þá geta svona hlutir gerst.

Góð lið refsa fyrir mistök og það var, að einhverju leyti, plan Valsmanna að gera það. Ég sagði við leikmennina eftir leikinn að ef við höldum áfram á þessari braut þurfum við ekki að hafa áhyggjur. Við getum tekið margt jákvætt með okkur út úr þessu en það vantar kannski aðeins upp á betri ákvarðanatökur á síðasta þriðjungi vallarins en ég ætla ekki fara brjóta mig eða liðið niður þrátt fyrir tapið,“ sagði Óskar.

Gísli Eyjólfsson og Birkir Már Sævarsson eigast við í kvöld.
Gísli Eyjólfsson og Birkir Már Sævarsson eigast við í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kom ró í liðið

Blikar hófu tímabilið í leikkerfinu 3-4-3 en hafa spilað 4-3-3 í undanförnum leikjum sem hefur skilað góðri uppskeru.

„Það er alveg ljóst að eftir að við breytum um leikkerfi eftir Stjörnuleikinn þá kom ákveðin ró í liðið. Við hittum á góðan leik þar og hann færði okkur ákveðið sjálfstraust en á sama tíma finnst mér leikaðferðir vera eins og símanúmer. Þú byrjar í einhverju og endar svo í einhverju allt öðru.

Mér finnst þetta snúast meira um það hversu fljótir við erum að skila okkur til baka, hvernig byggjum við upp spilið, hvert fer bakvörðurinn og allt þetta. Mér finnst það skipta meira máli en það hvort við erum að spila með þrjá eða fjóra varnarmenn þannig séð. Það er samt alveg rétt að við unnum þrjá leiki í röð eftir að við ákváðum að byrja leikina með fjögurra manna varnarlínu.“

Kristinn Freyr Sigurðsson umkringdur Blikum á Hlíðarenda.
Kristinn Freyr Sigurðsson umkringdur Blikum á Hlíðarenda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Komnir lengra en í fyrra

Blikum hefur gengið bölvanlega að vinna liðin fyrir ofan sig í töflunni síðan Óskar Hrafn tók við þjálfun Breiðabliks í október 2019.

„Við þurfum að taka þau færi sem við fáum og gera færri mistök. Við þurfum að vera betri í því sem við erum að gera og spila hraðar á milli línanna. Við þurfum að verjast betur, sérstaklega í föstum leikatriðum. Þá hef ég enga trú á öðru en að þetta komi. Sumum finnst þetta ganga hægt en Stjarnan var í þriðja sæti í fyrra og við unnum þá á dögunum þótt þeir séu kannski ekki topplið núna.

Við unnum Víking í fyrra en Víkingarnir eru topplið núna. Við höfum ekki unnið Val, KR og FH en það er ekki bara hægt að horfa á það. Mér fannst þessi leikur í kvöld mun betri hjá okkur núna en báðir leikirnir í fyrra. Mér finnst liðið komið lengra en í fyrra en þetta er þolinmæðisvinna ef við ætlum að gera hlutina eins og við viljum gera þá.“

Damir Muminovic á fleygiferð í kvöld.
Damir Muminovic á fleygiferð í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breytum ekki því liðna

Breiðablik var spáð Íslandsmeistaratitlinum í spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna liða í deildinni en liðið er með 13 stig í fimmta sætinu.

„Auðvitað myndi ég vilja vera með fleiri stig en það eina sem við getum gert er að mæta vel gíraðir í næsta leik gegn FH.

Við breytum ekki stigasöfnun liðsins á þessum tímapunkti og það er ekkert annað að gera en að einbeita sér að næsta leik,“ bætti Óskar við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert