Getur hætt að væla yfir að fá ekki sendingar

Kristinn Steindórsson með boltann í dag.
Kristinn Steindórsson með boltann í dag. Ljósmynd/Jón Helgi Pálmason

„Það er óhætt að segja það og við hefðum getað skorað fleiri,“ sagði Kristinn Steindórsson, leikmaður Breiðabliks, aðspurður hvort 4:0-sigur hafi gefið rétta mynd af leik Breiðabliks og Leiknis á Kópavogsvelli í dag. Breiðablik skoraði tvö mörk í sitt hvorum hálfleiknum og vann öruggan sigur. 

„Fyrri hálfleikurinn var svolítið losaralegur og mikið um slakar sendingar. Við vorum að reyna of erfiða hluti og vorum værukærir. Við náðum samt inn tveimur mörkum í fyrri og í hálfleik skerptum við á þessu. Við náðum að stjórna leiknum betur í seinni hálfleik. Við vissum að ef við héldum boltanum þyrftu þeir að koma nær okkur og þá opnast svæði. Við gerðum það mjög vel,“ bætti Kristinn við í samtali við mbl.is. 

Gísli Eyjólfsson kom inn á sem varamaður á 66. mínútu og ellefu mínútum síðar var hann búinn að skora tvö mörk. „Það vita það allir sem fylgjast með þessu að Gísli er frábær leikmaður sem kemur með kraft. Hann getur líka tekið menn á og brotið þetta upp. Það var gaman að fá hann inn aftur að skora mörk og þá getur hann hætt að væla yfir því að hann sé ekki að fá sendingar,“ sagði Kristinn léttur. 

Breiðablik hefur unnið sex af síðustu sjö leikjum í deildinni og er liðið nú í öðru sæti deildarinnar með 22 stig, fimm stigum á eftir Val og með leik til góða. „Mér líst mjög vel á þetta. Eftir slaka byrjun vissum við að það byggi meira í okkur. Við höfum sýnt það í síðustu leikjum; þótt úrslitin á móti Val væru ekki góð, þá var spilamennskan góð í þeim. Við höldum bara áfram,“ sagði Kristinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert