Stórkostleg endurkoma Blika í Lúxemborg

Damir Muminovic skoraði sigurmarkið með glæsilegu skoti.
Damir Muminovic skoraði sigurmarkið með glæsilegu skoti. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Breiðablik vann magnaðan 3:2-útisigur á Racing Union frá Lúxemborg í fyrri leik liðanna í 1. umferð Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta í kvöld. Heimamenn í Racing komust í 2:0 en Breiðablik neitaði að gefast upp og svaraði með þremur mörkum.  

Breiðablik fór ágætlega af stað og náði í hornspyrnur í upphafi leiks og sótti að Racing-liðinu. Það kom því nokkuð gegn gangi leiksins þegar Yann Mabella kom Racing yfir á 15. mínútu.

Blikarnir reyndu hvað þeir gátu til að jafna og sóttu nokkuð næstu mínútur en eftir flotta sókn Breiðabliks fengu heimamenn skyndisókn og Mabella slapp einn í gegn og skoraði af öryggi framhjá Antoni Ara Einarssyni í marki Breiðabliks.

Markið kom á 34. mínútu og staðan orðin erfið fyrir Breiðablik. Kópavogsliðið gafst því ekki upp því aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Gísli Eyjólfsson með föstu skoti í teignum og minnkaði muninn í 2:1, sem urðu hálfleikstölur.

Mikið jafnræði var með liðunum framan af í seinni hálfleik og lítið um mjög góð færi. Það breyttist þó á 65. mínútu þegar Thomas Mikkelsen fékk boltann óvænt í vítateig heimamanna eftir mistök í vörninni og skoraði af öryggi og jafnaði í 2:2.

Blikar voru líklegri til þess að skora sigurmarkið eftir jöfnunarmarkið og það kom loks á 88. mínútu þegar Damir Muminovic skoraði stórglæsilegt mark. Miðvörðurinn smellhitti boltann á lofti utarlega í teignum og setti hann í bláhornið niðri og tryggði Breiðabliki sigurinn í leiðinni.

Seinni leikurinn fer fram á Kópavogsvelli eftir viku og Breiðablik stendur vel að vígi.

Neituðu að gefast upp

Það hefði verið auðvelt fyrir Breiðablik að leggja árar í bát tveimur mörkum yfir á útivelli en rétt eins og Valsmenn í gær neituðu þeir að gefast upp og skoruðu þrjú góð mörk. Það var ekki mikið um færi í leiknum og því glæsilega gert hjá Blikum að nýta sín fáu færi vel. 

Fyrir utan tvo hættulega framherja bauð Racing Union upp á lítið og nái Blikar að hafa hemil á þeim í seinni leiknum er ljóst að Kópavogsliðið á mjög góða möguleika á að fara áfram. 

Racing Union 2:3 Breiðablik opna loka
90. mín. Kominn uppbótartími. Hann verður að minnsta kosti fimm mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert