„Þetta er stórt“

Höskuldur Gunnlaugsson lagði upp sigurmarkið.
Höskuldur Gunnlaugsson lagði upp sigurmarkið. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, var vitaskuld í góðu skapi þegar mbl.is heyrði í honum í Lúxemborg í kvöld. Breiðablik gerði góða ferð þangað og vann 3:2-endurkomusigur á Racing Union í 1. umferð Sambandsdeildarinnar eftir að Racing hafði komist í 2:0. 

„Mér fannst við betri frá upphafi. Við fáum á okkur tvö klaufaleg mörk. Þeir eru samt fínt lið og með einstaklingsgæði. Það var sami gaurinn sem refsaði okkur tvisvar en eftir það fór sviðsskrekkurinn og við ýttum þeim aftar og aftar og tókum yfir leikinn. Þetta lá í loftinu,“ sagði Höskuldur við mbl.is. 

Damir Muminovic skoraði sigurmarkið með glæsilegu skoti eftir sendingu frá Höskuldi undir lokin og var vel fagnað. „Breiðablik hefur bara einu sinni áður unnið útileik í Evrópukeppni og við tökum þessu ekki sem sjálfsögðum hlut. Þetta er stórt. Við erum búnir að æfa þetta mikið. Ég vippa á Damir og hann tekur boltann á lofti. Hann er orðinn góður í þessu.“

Damir Muminovic skoraði glæsilegt mark.
Damir Muminovic skoraði glæsilegt mark. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Höskuldur var ánægður með spilamennsku Blikanna, sérstaklega í ljósi þess að liðið fór á útivöll í Evrópukeppni og spilaði fínan fótbolta. 

„Ég verð að segja það. Við hefðum getað gert betur í mörkunum sem við fáum á okkur en við mættum hugrakkir á þjóðarleikvang Lúxemborgar og gerum hann að okkar velli. Það þarf hugrekki til að falla ekki í skotgrafir. Við komum þangað til að sækja sigur. Þetta voru toppaðstæður; algjört teppi á þjóðarleikvanginum og við á flottu hóteli. Við æfðum reyndar á mjög vondum velli fyrsta daginn en það kveikti bara í okkur.“

Fyrirliðinn er bjartsýnn fyrir seinni leikinn á Kópavogsvelli eftir viku. „Við erum í bílstjórasætinu og núna er það okkar að klára þetta. Ég finn að við erum í betra standi en þeir, enda eru þeir að hefja nýtt tímabil. Við erum í flottu standi og hlupum yfir þá. Ef við höldum þessu áfram í næsta leik ættum við að taka þetta,“ sagði Höskuldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert