„Menn nærast á því að vinna“

Finnur Orri Margeirsson, hinn fjölhæfi leikmaður Breiðabliks.
Finnur Orri Margeirsson, hinn fjölhæfi leikmaður Breiðabliks. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Finnur Orri Margeirsson, leikmaður Breiðabliks, segir jákvæða stemningu innan leikmannahóp liðsins eftir gott gengi að undanförnu og frábæra endurkomu í fyrri leik þess gegn Racing Union frá Lúxemborg í 1. umferð Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu karla.

Eftir að hafa lent 0:2 undir í þeim leik sneru Blikar taflinu við og náðu að vinna frækinn 3:2-sigur ytra. Síðari leikur liðanna fer fram á Kópavogsvellinum klukkan 19 í kvöld.

„Við erum bara rosa flottir. Æfingavikan er búin að vera góð og mikill kraftur í mönnum. Þetta var góð endurkoma í síðasta leik og þá er jákvæð stemning í hópnum í kjölfarið og menn nærast á því að vinna. Það er ekkert öðruvísi nú,“ sagði Finnur Orri í samtali við mbl.is.

Blikum hefur gengið vel að undanförnu.
Blikum hefur gengið vel að undanförnu. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Í samtali við Morgunblaðið í dag sagði hann Blika geta gert enn betur í leiknum í kvöld. „Eins og almennt með þessa Evrópuleiki eru menn að renna blint í sjóinn í fyrsta leik, því þetta er ekki lið sem við erum búnir að spila við oft.

Það er kannski líka bara gott að fá hrollinn úr sér og vera búnir að klára fyrri leikinn og skila góðum úrslitum. En það eru klárlega tækifæri til þess að gera enn betur í heimaleiknum og ná í góð úrslit. Það er markmið okkar.“

Finnur Orri sagði möguleika Breiðabliks á að tryggja sér sæti í annarri umferð því góða, en til þess að gera það þyrfti liðið að eiga toppleik.

„Við þurfum náttúrlega að eiga góðan leik, eiga 100 prósent leik til þess að markmið okkar gangi upp. Þetta snýst svolítið um það að ná upp góðu tempói og góðri stemningu í leiknum. Ef við náum því þá tel ég að við séum á mjög góðum stað og getum náð í hagstæð úrslit,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

Leikur Breiðabliks og Racing Union verður í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert