„Gaman að hafa átt það skilið að slá þá út“

Höskuldur Gunnlaugsson lagði upp fyrra mark Breiðabliks í gær.
Höskuldur Gunnlaugsson lagði upp fyrra mark Breiðabliks í gær. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

„Maður er í smá spennufalli í dag. Þetta voru náttúrlega ótrúleg úrslit og hrikalega gaman að hafa átt það fyllilega skilið að slá þá út. Það var ekki einhver heppnis-ára yfir þessu sem kom okkur í gegn, heilt yfir vorum við bara betra liðið. Það gerði þetta ennþá skemmtilegra.“

Þetta sagði Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, í samtali við mbl.is í morgun og vísaði þar til frækins sigurs liðsins gegn Austria Wien í annarri umferð Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu karla í gær.

Breiðablik vann 2:1-sigur á Kópavogsvelli í gær eftir að hafa náð 1:1-jafntefli í Austurríki í síðustu viku. Blikar unnu þar með einvígið samanlagt 3:2.

Blikar voru alls óhræddir og sóttu af krafti í byrjun leiks og voru búnir að uppskera tvö lagleg mörk þegar fyrri hálfleikur var rétt rúmlega hálfnaður. Höskuldur sagði það hafa verið með ráðum gert að liðið hafi einfaldlega spilað sinn leik.

„Planið var að vera trúir sjálfum okkur. Við stilltum þessu klárlega þannig upp að við ætluðum að vera við sjálfir. Ég held að ef við ætlum að vera einhver önnur útgáfa af okkur þá sést að það er ekki gott fyrir úrslitin hjá okkur hreinlega.

Við kunnum ekkert annað en að vera hugrakkt lið sem vill pressa hátt og hlaupa yfir andstæðingana. Það var í huga okkar að tækla Austria Wien eins og alla aðra andstæðinga,“ sagði hann.

Heilt yfir betra liðið

Spurður hvort eitthvað hafi komið Blikum á óvart í leik Austria Wien sagði Höskuldur:

„Ekkert þannig. Að einhverju leyti kom það manni á óvart, sérstaklega í leiknum úti, þegar maður var að spila á þessum risavelli við mjög „pro“ aðstæður, hvað við vorum fljótir að komast á þeirra stig og bara gott betur.

Kristinn Steindórsson og Árni Vilhjálmsson skoruðu mörk Blika í gær. …
Kristinn Steindórsson og Árni Vilhjálmsson skoruðu mörk Blika í gær. Það glittir í Höskuld fyrir aftan þá. mbl.is/Unnur Karen

Við komum sjálfum okkur á óvart hvað það varðar því þetta er alveg frábært lið og leikmenn þarna með mikil einstaklingsgæði en liðsheildin klárlega betri hjá okkur og við heilt yfir betra liðið þannig séð. Auðvitað eru frábærir leikmenn í þessu Austria Wien-liði, það sást alveg á köflum.“

Gulrót að fá að fara aftur út

Í þriðju umferð Sambandsdeildarinnar mun Breiðablik mæta skoska liðinu Aberdeen. Fyrirliðinn sagði leikmenn spennta fyrir þeirri viðureign.

„Jú það er bara skemmtilegt. Ég hef spilað á þessum velli í Aberdeen. Við fórum þarna í U21-árs landsliðinu árið 2015. Þetta er sögufrægt lið með sir Alex Ferguson fremstan í flokki, það er bráðum stytta af honum að fara að rísa þarna. Þetta er bara hörkulið sem tók Häcken, sem er flott lið í Svíþjóð, 5:1 á þessum heimavelli sínum.

Eftir Víkings-leikinn í deildinni förum við að leikgreina þá almennilega og pæla í þeim en það hefur satt að segja ekki gefist allt of mikill tími til þess að fara að hugsa um það. En maður er bara spenntur og það er geggjað að vera komnir áfram í þessari keppni. Það er fyrst og fremst það sem er gulrótin í þessu öllu saman, að fá að fara aftur út með strákunum,“ sagði Höskuldur að lokum í samtali við mbl.is.

Gísli Eyjólfsson þrumar að marki í leiknum í gær.
Gísli Eyjólfsson þrumar að marki í leiknum í gær. mbl.is/Unnur Karen
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert