Gripu frumkvæðið og héldu því til leiksloka

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks. mbl.is/Unnur Karen

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, var að vonum ánægður með 4:0-sigur liðs síns á Víkingum í úrvalsdeild karla í kvöld. Sigur Blika var mjög sanngjarn, þrátt fyrir að það hafi tekið nokkurn tíma fyrir þá að vinna sig inn í leikinn eftir brösóttar upphafsmínútur. Óskar Hrafn segir það oft geta tekið tíma fyrir menn að vinna sig inn í leiki þegar mikið leikjaálag er. 

„Það sem gerist er að menn eru þungir, menn eru þreyttir. Þegar það er mikið álag tekur smá tíma að vinna sig inn í leiki og verða klár,“ segir Óskar Hrafn og bætir við að það hafi litið út eins og fyrstu tíu til fimmtán mínútur leiksins væru framhald af upphituninni. „En svo gerist það að menn hitna, þeir komast í takt við leikinn og í takt hver við annan. Það var lykillinn. Það breyttist ekkert, planið var það sama, sendingaleiðinar voru þær sömu, pressan var sú sama og hreyfingarnar þær sömu. Þær voru gerðar bara aðeins hraðar eftir 15. mínútu, sem gerði það að verkum að Víkingarnir misstu frumkvæðið, við tókum það og héldum því út leikinn.“

Þetta var í fimmta sinn í sumar sem Breiðablik vinnur heimaleik sinn með fjórum mörkum gegn engu. Aðspurður um hið góða gengi Breiðabliks á heimavelli miðað við gengi liðsins á útivelli segir Óskar Hrafn vert að bera saman leikinn í kvöld og útileikinn á móti Keflvíkingum, þar sem frammistaða liðsins var góð, þrátt fyrir tapið. „Ef við horfum á þetta í aðeins stærra samhengi, þá finnst mér þetta ekki snúast um heimavöll eða útivöll, þó að okkur líði svo sem ágætlega hérna, heldur að við reynum að horfa í frammistöðuna og bæta okkur sama hvar við spilum.“

Óskar Hrafn bendir á að Blikar hafi spilað mjög vel bæði úti í Lúxemborg og í Vín í Evrópukeppninni í sumar. „Þannig að mig langar að segja að heimavöllurinn er ekki aðalatriðið, heldur frekar takturinn og stöðugleiki, en það að verða stöðugri í frammistöðunni er eilífðarverkefni bæði þjálfara og leikmanna.“

Það vakti athygli á 69. mínútu þegar Blikar gerðu þrefalda breytingu á liði sínu, en þá komu Árni Vilhjálmsson, Thomas Mikkelsen og Finnur Orri Margeirsson inn á í stað þeirra Kristins Steindórssonar, Jasonar Daða Svanþórssonar og Davíðs Arnar Atlasonar. Óskar Hrafn segir það mikinn feng að hafa jafnsterkan varamannabekk. „Það er gott að vera með öfluga menn til taks, og þeir hefðu alveg getað byrjað inni á ef svo hefði borið undir. Við erum ekki með stærsta hópinn í deildinni, en mjög jafnan, sem er draumur hvers þjálfara.“

Óskar Hrafn segir sigurinn í kvöld gott veganesti fyrir framhaldið, en hann hyggst einbeita sér að næsta leik. „Maður er neyddur til þess að hugsa um einn leik í einu, og það er Aberdeen á fimmtudaginn, og skammur tími til stefnu. Við þurfum að undirbúa liðið sem best, bæði leikfræðilega, andlega og líkamlega, og allur fókus fer á það. Hvað gerist í deildinni er svo seinni tíma mál, við tökum á því þegar við komum að þeirri brú,“ segir Óskar Hrafn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert