Glæsileg endurkoma Breiðabliks dugði ekki til

Knötturinn í netinu hjá Aberdeen og staðan 1:2.
Knötturinn í netinu hjá Aberdeen og staðan 1:2. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik mátti þola 2:3-tap fyrir skoska liðinu Aberdeen er liðin mættust í fyrri leik liðanna í 3. umferð Sambandsdeildar Evrópu á Laugardalsvelli í kvöld. Breiðablik gerði vel í að jafna í 2:2 eftir að Aberdeen komst í 2:0 en skoska liðið skoraði sigurmarkið í upphafi seinni hálfleiks.

Breiðablik byrjaði hræðilega því strax á 3. mínútu skoraði bandaríski framherjinn Christian Ramirez af stuttu færi eftir hornspyrnu frá Calvin Ramsay. Ramirez var dauðafrír í teignum eftir hornspyrnu beint af æfingasvæðinu.

Átta mínútum síðar var staðan orðin 2:0. Aftur tók Ramsay horn og í þetta skiptið skoraði Lewis Ferguson með skalla af stuttu færi.

Breiðablik var hinsvegar langt frá því að vera af baki dottið. Blikarnir efldust við mótlætið og minnkuðu muninn á 16. mínútu þegar Gísli Eyjólfsson skoraði af stuttu færi eftir glæsilegan undirbúning hjá Árna Vilhjálmssyni.

Markið gaf Kópavogsliðinu aukinn kraft og liðið yfirspilaði skoska liðið út hálfleikinn með flottum fótbolta. Blikarnir spiluðu boltanum glæsilega með grasinu og voru mikið með knöttinn.

Það skilaði sér í jöfnunarmarki á 43. mínútu þegar Árni Vilhjálmsson var felldur í teignum og króatíski dómarinn dæmdi víti. Árni fór sjálfur á punktinn, skoraði af öryggi, og jafnaði í 2:2. Þannig var staðan í hálfleik.

Breiðablik byrjaði seinni hálfleikinn svipað og þann fyrri því Aberdeen komst í 3:2 á 49. mínútu. Eftir langan bolta fram sluppu tveir leikmenn Aberdeen inn fyrir vörn Breiðabliks og Ramirez skoraði auðvelt mark eftir sendingu frá varamanninum Connor McLennan.

Fá færi litu dagsins ljós það sem eftir lifði seinni hálfleiks. Gestirnir gerðu þrefalda skiptingu í hálfleik sem slökkti í sóknarleik Breiðabliks á meðan Kópavogsliðið varðist vel og tókst Skotunum ekki að skapa sér færi. Lokatölur urðu því 3:2 og sannarlega möguleikar til staðar er liðin mætast í Aberdeen eftir viku.

Árni Vilhjálmsson í baráttunni við Ross McCrorie, varnarmann Aberdeen og …
Árni Vilhjálmsson í baráttunni við Ross McCrorie, varnarmann Aberdeen og markvörðinn Joe Lewis í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg
Breiðablik 2:3 Aberdeen opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fjórar mínútur í uppbótartíma. Það er því miður fátt sem bendir til þess að Breiðablik jafni, en aldrei að segja aldrei.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert