Breiðablik lenti undir en náði í þrjú stig

Karitas Tómasdóttir jafnar fyrir Breiðablik í kvöld, 1:1.
Karitas Tómasdóttir jafnar fyrir Breiðablik í kvöld, 1:1. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Breiðablik náði í þrjú stig þegar Tindastóll og Breiðablik áttust við á Sauðárkróksvelli í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu  í kvöld. 

Leikur Tindastóls og Breiðabliks í Pepsi Max deild kvenna fór fram á Sauðárkróki í kvöld í blíðskapar veðri. Tindastóll í fallbaráttu í áttunda sæti með 11 stig en Breiðablik í því öðru með 28 stig og í bullandi toppbaráttu. Leiknum lauk með 1:3 sigri Breiðabliks.

Tindastóll byrjaði leikinn af krafti og á 2. mínútu nældu þær sér í aukaspyrnu á hættulegum stað. Úr henni skoraði Jasqueline Altschuld með glæsilegu skoti yfir varnarvegginn og í nærhornið. Breiðablik var eins og við var að búast meira með boltann en heimastúlkur í Tindastóli náðu þó fínu spili inn á milli sem er batamerki á þeirra leik. Á 17. mínútu jafnaði Breiðablik metin þegar að Chloé Vande Velde fékk allan tímann í heiminum til að stinga boltanum inn á Karítas Tómasdóttur, sem að með einni snertingu lék á þrjá varnarmenn Tindastóls og setti boltann niður í fjærhornið af stuttu færi.

Breiðablik voru líklegri það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og var Áslaug Munda einstaklega skæð þegar hún fékk boltann, skeiðaði upp völlinn og lék á varnarmenn Tindastóls en náði þó ekki að koma Blikum yfir og staðan því 1:1 þegar flautað var til hálfleiks. Það var síðan á 55. Mínútu sem að Blikar komust yfir en þar var á ferðinni Ásta Eir Árnadóttir sem laumaði sér á nærstöngina eftir hornspyrnu og skallaði boltann í netið. Rétt áður höfðu heimastúlkur bjargað tvívegis á línu.

Blikar voru töluvert líklegri en heimastúlkur til að skora annað mark og gerðist það á 68. mínútu þegar að Karítas skoraði sitt annað mark með hnitmiðuðu skoti í niðri í fjærhornið. Eftir þriðja mark Blika voru þær líklegri til að bæta við fleiri mörkum en sú varð ekki raunin. Lokatölur urðu því 1-3 fyrir Breiðablik sem reyndust vera númeri of stórar fyrir Króksarana sem gáfu þeim þó ágætan leik.

Tindastóll er ennþá í mikilli fallbaráttu en Blikar skrefi nær Völsurum í efsta sætinu.

Tindastóll 1:3 Breiðablik opna loka
90. mín. 90 mínútur komnar á klukkuna, ég geri ekki ráð fyrir því að miklu verði bætt við venjulegan leiktíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert