Alveg augljóst að við áttum að fá vítaspyrnu

Ásgeir Sigurgeirsson í baráttunni í leiknum í kvöld.
Ásgeir Sigurgeirsson í baráttunni í leiknum í kvöld. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Ásgeir Sigurgeirsson, fyrirliði KA, sagði liðið hafa átt að fá vítaspyrnu þegar stigið var á ökkla hans innan vítateigs í fyrri hálfleik í 0:2-tapinu gegn Breiðabliki í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld.

„Við komum kannski ekki alveg nógu vel inn í leikinn og þeir fá mjög gott færi í byrjun leiks. Svo eru þeir ívið sterkari aðilinn og ná markinu inn. Þá er eins og við dettum aðeins í gang og förum að sækja á þá og finnst við eiginlega vera með leikinn í okkar höndum þegar seinna markið hjá þeim kemur inn,“ sagði Ásgeir í samtali við mbl.is að leik loknum.

Á 36. mínútu, í stöðunni 0:1, steig Alexander Helgi Sigurðarson á hægri ökkla Ásgeirs innan teigs en ekkert var þó dæmt. „Þeir voru svolítið heppnir, við áttum að fá vítaspyrnu, það var alveg augljóst. En svo eftir seinna markið náðum við ekki að rífa okkur í gang,“ sagði hann.

Aðspurður hvað hafi valdið því að KA-mönnum tókst ekki að bregðast betur við eftir seinna markið sagði Ásgeir: „Ég get ekki sagt til um það. Það er bara eitthvað sem við þurfum að fara heim og skoða. Við þurfum að mæta klárir á miðvikudaginn og taka þar þrjú stig heima.“

KA fær einmitt Breiðablik í heimsókn á Greifavöllinn á Akureyri næstkomandi miðvikudag, einnig í deildinni, en það kemur til vegna þess að leikurinn í kvöld var frestaður leikur. Ásgeir sagði það jákvætt. „Jú, það er mjög gott. Það er það góða við þetta, að við fáum annan séns.“

Með tapinu í kvöld er draumur KA-manna um að blanda sér af alvöru í baráttuna um Íslandsmeistaratitilinn úr sögunni en hann sagði liðið þó ekki á þeim buxunum að leggja árar í bát enda möguleikarnir á því að enda ofarlega í deildinni enn góðir, en KA er sem stendur í fjórða sæti deildarinnar með 30 stig að 17 leikjum loknum.

„Við ætlum bara að vinna alla leiki sem eftir eru og sjá hverju það skilar okkur, það er ekkert flóknara en það,“ sagði Ásgeir að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert