Breiðablik skoraði átta - Agla María og Áslaug Munda með sýningu

Blikastúlkur settu upp sýningu í Litháen í dag.
Blikastúlkur settu upp sýningu í Litháen í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik flaug í aðra umferð Meistaradeildar Evrópu með mögnuðum 8:1-sigri gegn litháíska liðinu Gintra á Siauliai-vellinum í Litháen í öðrum leik fyrstu umferðar keppninnar í dag. Agla María Albertsdóttir og Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir fóru á kostum í leiknum.

Blikastúlkur mættu gífurlega áræðnar til leiks og tóku þegar í stað öll völd á vellinum.

Eftir gífurlega pressu uppskáru þær mark snemma leiks þegar Tiffany McCarty skoraði á 10. mínútu. Hún fékk þá fyrirgjöf frá Karitas Tómasdóttur og skallaði boltann snyrtilega í nærhornið, 1:0.

Þrátt fyrir orrahríð að marki Gintra virtist Blikum ekki ætla að auðnast að tvöfalda forystu sína áður en flautað var til leikhlés.

Undir lok fyrri hálfleik komu hins vegar tvö mörk með örstuttu millibili. Fyrst skoraði Agla María á 42. mínútu þegar Áslaug Munda átti góða fyrirgjöf á fjærstöngina þar sem Agla María var mætt og skallaði boltann í jörðina og þaðan upp í samskeytin.

Tæpri mínútu síðar tók Áslaug Munda málin í sínar hendur þegar hún lék með boltann inn að miðju af hægri kantinum, lét einfaldlega vaða af löngu færi og boltinn söng í netinu.

43 mínútur liðnar og staðan skyndilega orðin 3:0, sem voru hálfleikstölur.

Ef fyrri hálfleikurinn var fjörugur þá var sá síðari það ekki síður enda opnuðust flóðgáttir.

Á 49. mínútu slapp McCarty skyndilega í gegn og skoraði með góðu skoti úr vítateignum sem endaði í bláhorninu fjær, hennar annað mark í leiknum.

Strax í næstu sókn minnkaði Gintra hins vegar muninn þegar Madison Gibson slapp í gegn og skoraði af harðfylgi.

Fimm mínútum síðar, á 55. mínútu, var komið að miðverðinum Heiðdísi Lillýjardóttur að komast á blað. Agla María tók þá hornspyrnu frá vinstri og fann Heiðdísi á fjærstönginni, hún skallaði að marki og Greta Lukkancuké varði boltann heldur klaufalega í netið.

Staðan orðin 5:1 og síðari hálfleikur aðeins 10 mínútna gamall.

Á 64. mínútu lagði Áslaug Munda svo upp annað skallamark fyrir Öglu Maríu. Sú fyrrnefnda átti þá stórkostlega, firnafasta fyrirgjöf af vinstri kantinum inn á vítateig þar sem Agla María mætti og stangaði boltann af miklum krafti í netið.

Á 72. mínútu fullkomnaði Agla María svo þrennu sína og enn á ný lagði Áslaug Munda upp markið. Hún gaf þá fasta fyrirgjöf frá vinstri og Agla María var mætt eins og gammur í teignum til þess að stýra boltanum í netið af stuttu færi.

Agla María Albertsdóttir átti stórleik.
Agla María Albertsdóttir átti stórleik. mbl.is/Unnur Karen

Fjórum mínútum síðar kom áttunda mark Blika. Varamaðurinn Hildur Antonsdóttir skoraði þá með glæsilegum skalla eftir frábæra sendingu Öglu Maríu úr aukaspyrnu.

Þar við sat og lokatölur 8:1. Fimm af átta mörkum Blika komu með skalla.

Agla María og Áslaug Munda áttu sem áður segir báðar hreint út sagt ótrúlegan leik. Agla María skoraði þrennu og lagði upp önnur tvö og Áslaug Munda skoraði eitt og lagði upp öll þrjú mörk Öglu Maríu.

Breiðablik er þar með í pottinum þegar dregið verður í aðra umferð Meistaradeildarinnar á morgun eftir að hafa unnið KÍ Klaksvík í fyrri leik fyrstu umferðar keppninnar fyrr í vikunni.

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir átti sömuleiðis stórleik.
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir átti sömuleiðis stórleik. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Gintra 1:8 Breiðablik opna loka
90. mín. Taylor Ziemer (Breiðablik) á skot sem er varið Skotið nokkuð laust og Lukkancuké ver.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert