Guðni ætlaði að stíga tímabundið til hliðar

Guðni Bergsson lét af störfum sem formaður KSÍ í lok …
Guðni Bergsson lét af störfum sem formaður KSÍ í lok ágústmánaðar. mbl.is//Hari

Guðni Bergsson, fyrrverandi formaður Knattspyrnusambands Íslands, lagði fram þá tillögu á stjórnarfundi KSÍ hinn 29. ágúst, að hann myndi stíga tímabundið til hliðar sem formaður sambandsins.

Þetta kom fram í fundargerð stjórnar KSÍ frá sunnudeginum 29. ágúst en vikuna áður hafði sambandið legið undir harðri gagnrýni fyrir þöggun og meðvirkni með meintum gerendum innan sambandsins. 

Guðni mætti í Kastljósviðtal hinn 26. ágúst þar sem hann neitaði staðfastlega að KSÍ hefði fengið tilkynningar um meint kynferðisbrot af hálfu landsliðsmanna í knattspyrnu.

Í kjölfar ummæla Guðna steig Þórhildur Gyða Arnarsdóttir fram og greindi frá meintu broti landsliðsmanns í knattspyrnu en sá reyndist vera Kolbeinn Sigþórsson.

„Guðni Bergsson formaður lagði fram þá tillögu að hann myndi stíga tímabundið til hliðar sem formaður á meðan að úttekt væri gerð á viðbrögðum sambandsins við þeim málum sem upp hafa komið í tengslum við þær upplýsingar sem fram komu í Kastljósi og fréttum RÚV um kynferðisbrot. Rætt var ítarlega um málið,“ segir meðal annars í fundargerð stjórnar.

„Í framhaldi af því viku formaður sambandsins, Guðni Bergsson og framkvæmdastjóri Klara Bjartmarz af fundi tímabundið. Formaður sambandsins, Guðni Bergsson tók aftur sæti á fundi stjórnar og var þá rætt um tillögu hans.

Fram kom að tillaga formanns næði ekki fram að ganga og tók hann í kjölfarið þá ákvörðun að segja af sér embætti formanns þegar í stað vegna meðhöndlunar og stöðu þeirra mála sem um ræðir og kvaðst munu ganga frá yfirlýsingu þess efnis. Vék hann að þá þegar af fundi,“ segir ennfremur í fundargerðinni.

mbl.is