Gott að fá Kyle en við þurfum annan miðvörð

Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings, Kyle McLagan og Heimir Gunnlaugsson formaður …
Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings, Kyle McLagan og Heimir Gunnlaugsson formaður meistaraflokksráðs karla hjá Víkingi við undirskrift samningsins í dag. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Arnar Gunnlaugsson þjálfari Íslandsmeistara Víkings vonast eftir því að bandaríski varnarmaðurinn Kyle McLagan muni falla vel inn í sitt lið á næsta keppnistímabili en hann kemur til þeirra frá Fram og skrifaði í dag undir tveggja ára samning við Víking.

„Kyle hefur vakið mikla athygli mína í sumar og reyndar í fyrra líka þegar hann kom inn í lið Fram. Hann hefur eiginlega allan pakkann, finnst mér, og á töluvert inni til að bæta sig. Hann er öflugur miðvörður og svo er þetta mikill íþróttamaður, ekki sá hávaxnasti en snöggur og með góðan stökkkraft. Nonni (Jón Þ. Sveinsson) þjálfari Fram er þekktur fyrir að láta liðið sitt spila fótbolta þannig að honum líður vel þar," sagði Arnar við mbl.is.

„Auðvitað er munur á deildunum og við gerum okkur grein fyrir því að mögulega þarf hann smá tíma til að laga sig að okkur og úrvalsdeildinni en það búa miklir hæfileikar í honum. Ég held að hann muni falla mjög vel inn í okkar hóp. Svo virkar hann bara sem toppstrákur," sagði Arnar.

Tveir reyndustu miðverðir deildarinnar, Kári Árnason og Sölvi Geir Ottesen, leggja skóna á hilluna þegar þátttöku Víkinga í bikarkeppninni lýkur í haust og Arnar kvaðst aðeins vera búinn að fylla skarð þeirra að hálfu leyti.

„Já, við teljum okkur þurfa tvo miðverði. Hann er þá annar og við getum  verið rólegir í leit okkar að miðverði með meiri reynslu. Við vitum ekki hve langan tíma Kyle þarf, okkar reynsla með leikmenn sem koma úr 1. deildinni er að þeir geta þurft dálítinn tíma, þannig að hinn miðvörðurinn sem við erum að leita að á að geta komið beint inn - vonandi yngri útgáfa af Kára og Sölva - og kunnað sitt fag frá fyrsta degi.“

Arnar taldi ólíklegt að þar yrði um íslenskan leikmann að ræða.

„Það verður líklega erlendur leikmaður, kannski Íslendingur sem er að koma heim. En ég vil koma með liðið þannig inn í veturinn að það geti unnið alla leiki, við erum með sterka miðverði til þess nú þegar, en til þess að landa þessum bita þurfum við tíma fram í janúar eða febrúar. Það er ekkert stress og mér líður vel með þetta núna," sagði Arnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert