Kristian á lista yfir efnilegustu leikmenn heims

Kristian Nökkvi Hlynsson í leik með íslenska U21-árs landsliðinu gegn …
Kristian Nökkvi Hlynsson í leik með íslenska U21-árs landsliðinu gegn Grikklandi í síðasta mánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á hverju ári tekur enski miðillinn The Guardian saman 60 manna lista yfir efnilegustu knattspyrnumenn heims. Kristian Hlynsson, 17 ára gamall miðjumaður hollenska félagsins Ajax, er þar á lista í ár.

Í umfjöllun The Guardian um Kristian segir:

„U21-árs landslið Íslands spilaði tvo leiki í September þar sem hinn 21. árs gamli Ágúst Hlynsson var á varamannabekknum. Það kann að hljóma nokkuð ómerkilegt en sú staðreynd að 17 ára gamall bróðir hans, Kristian, byrjaði leikina í treyju númer 10 er til marks um hversu vel metinn þessi skapandi miðjumaður er í heimalandi sínu.

Þróun leiks Kristians frá því að hann gekk til liðs við Ajax frá Breiðabliki í upphafi árs 2020 hefur verið hröð. Hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir varalið Ajax í næstefstu deild Hollands í desember síðastliðnum og á þessu tímabili er hann þegar búinn að tryggja sér byrjunarliðssæti í liðinu sem John Heitinga þjálfar.

Þjálfarar aðalliðsins fylgjast grannt með bætingum hans. Fyrirmyndir Kristians eru Kevin De Bruyne og Hakim Ziyech og hann stendur upp úr vegna færni hans í að lesa leikinn, sendingagetu og auga fyrir mörkum.“

Kristian er nú í verkefni með U19-ára landsliði Íslands, þar sem liðið vann góðan 3:1 sigur gegn Slóveníu í fyrstu umferð undankeppni EM 2023 í gær. Næst á liðið leik í undankeppninni gegn Ítalíu á laugardag.

Íslenskir leikmenn hafa áður komist á þennan 60 manna lista hjá The Guardian. Á síðasta ári var Ísak Bergmann Jóhannesson á honum, árið á undan var Andri Lucas Guðjohnsen þar og árið 2016 var Kolbeinn Birgir Finnsson á honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert