Blikar í engum vandræðum með Keflavík

Gísli Eyjólfsson með boltann í leiknum í kvöld. Sindri Þór …
Gísli Eyjólfsson með boltann í leiknum í kvöld. Sindri Þór Guðmundsson er til varnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breiðablik vann 4:1-yfirburðasigur á Keflavík í fyrstu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld.

Á fyrstu mínútu leiksins fengu heimamenn hornspyrnu. Höskuldur Gunnlaugsson smellti boltanum fyrir markið þar sem Ísak Snær Þorvaldsson, sem kom til Breiðabliks frá ÍA í vetur, mætti algjörlega einn og óvaldaður og stangaði boltann í netið. Rétt rúmlega mínúta liðin og boltinn kominn í markið. 20 mínútum síðar var Ísak svo aftur á ferðinni. Viktor Karl Einarsson komst þá upp hægri vænginn, átti frábæra fyrirgjöf þar sem Ísak mætti og skoraði aftur með skalla. 

Einungis þremur mínútum síðar var röðin svo komin að Viktori sjálfum. Hann og Jason Daði Svanþórsson sluppu þá tveir einir í gegnum vörn Keflavíkur eftir frábæra sendingu Gísla Eyjólfssonar. Boltinn fór af Jasoni og á Viktor sem kláraði mjög auðveldlega framhjá Sindra Kristni Ólafssyni í marki gestanna. Yfirburðir heimamanna í fyrri hálfleik voru gríðarlegir. Keflvíkingar fengu varla að prófa boltann á löngum köflum og það var ekki þeim að þakka að Blikar skoruðu ekki fleiri mörk. 

Á áttundu mínútu síðari hálfleiks kom svo fjórða markið. Höskuldur fann þá Jason Daða hægra megin í teignum sem sneri glæsilega áður en hann dansaði framhjá varnarmönnum Keflavíkur og lagði boltann í fjærhornið. Virkilega fallegt mark. Leikurinn róaðist talsvert eftir fjórða markið en yfirburðir Blika voru áfram miklir. Þeir héldu vel í boltann og var seinni hálfleikurinn í raun og veru bara fínasta æfing í því. Keflavík klóraði þó í bakkann þegar rétt rúmlega 10 mínútur voru eftir af leiknum. Adam Ægir Pálsson lyfti boltanum þá fyrir markið þar sem Færeyingurinn Patrik Johannesen mætti og skallaði hann í netið. Fleiri urðu mörkin þó ekki og 4:1-sigur Breiðabliks staðreynd.

Blikar líta vel út

Lið Breiðabliks kemur vel undan vetri og var virkilega vel spilandi í kvöld. Keflavík reyndi að pressa hátt á vellinum en Breiðablik átti mjög auðvelt með að leysa það. Mikið hefur verið rætt og ritað um Ísak Snæ Þorvaldsson undanfarið, að Óskar Hrafn þjálfari liðsins sé að spila honum á kantinum. Hann svaraði heldur betur þeirri gagnrýni í kvöld, skoraði tvö mörk og var valinn maður leiksins.

Keflvíkingar hins vegar þurfa að bæta sinn leik eigi þetta sumar ekki að fara illa. Upplegg þeirra í leiknum virtist vera að setja pressu á Breiðablik sem verður að teljast djarft. Leikur liðsins skánaði þó eftir því sem leið á og var liðið síst verri aðilinn á um korters kafla í síðari hálfleik. Liðið á Úkraínumanninn Ivan Kalyuzhnyi inni og ef það er góður leikmaður lítur þetta allt saman töluvert betur út.

Breiðablik 4:1 Keflavík opna loka
90. mín. Adam Ægir Pálsson (Keflavík) á skot sem er varið Enn er Adam að ógna. Á núna fínustu tilraun rétt fyrir utan teig sem Anton ver í horn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert