Leshnak hetja Keflavíkur í ótrúlegum sigri

Samantha Leshnak varði mark Keflavíkur af snilld í kvöld.
Samantha Leshnak varði mark Keflavíkur af snilld í kvöld. Ljósmynd/Keflavík

Keflavík vann ótrúlegan 1:0-sigur á Breiðabliki í Keflavík í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í kvöld þar sem markvörður Keflavíkur, Samantha Leshnak átti sannkallaðan stórleik.

Þrátt fyrir að fyrri hálfleikurinn hafi verið hálfgerð eign gestanna úr Kópavogi var það Keflavík sem leiddi með einu marki þegar liðin gengu til búningsherbergja. Breiðablik sótti nánast án afláts en það var Amelía Rún Fjeldsted sem skoraði eina mark fyrri hálfleiks þegar hún skallaði hornspyrnu Anítu Lindar Daníelsdóttur í netið.

Yfirburðir Breiðabliks héldu áfram í seinni hálfleiknum en Keflavíkur-liðið lá til baka og spilaði gríðarlega agaðan varnarleik með Leshnak í miklum ham þar fyrir aftan. Leshnak var að öðrum ólöstuðum maður leiksins en hún varði hvert skotið á fætur öðru í markinu. 

Breiðablik sótti áfram án afláts en Leshnak varði allt sem á markið kom ásamt því að vera dugleg að koma út úr markinu grípa fyrirgjafir.  Í uppbótartíma fékk Breiðablik svo vítaspyrnu þegar Sigurrós Eir Guðmundsdóttir braut klaufalega á varamanninum Kristjönu Kristjánsdóttur Sigurz en Samantha Leshnak kórónaði stórkostlegan leik sinn með því að verja vítaspyrnuna. Í heildina varði hún hvorki meira né minna en 13 skot í leiknum.

Keflavík er því með fullt hús stiga eftir tvær umferðir en Breiðablik er með 3 stig.

Keflavík 1:0 Breiðablik opna loka
90. mín. Breiðablik fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert