Öruggur sigur hjá Breiðabliki

Melina Ayres hjá Breiðabliki í færi í kvöld. Hún skoraði …
Melina Ayres hjá Breiðabliki í færi í kvöld. Hún skoraði tvö markanna. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Breiðablik vann öruggan 3:0 sigur á liði Stjörnunnar í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld.

Fyrsta mark Breiðabliks skoraði Melina Ayers á 41. mínútu og svo bætti Birta Georgsdóttir öðru marki við á 50. mínútu. Melina Ayers skoraði sitt annað mark og þriðja mark Breiðabliks úr vítaspyrnu á 64. mínútu. Þessi sigur þýðir að Breiðablik er komið með sex stig eftir þrjár leiki í deildinni en Stjarnan er áfram með fjögur stig eftir þrjá leiki.

Breiðablik byrjaði leikinn betur og strax á 3. mínútu leiksins átti Hildur Antonsdóttir skot í stöng eftir góða sókn en síðan settu varnarmenn Stjörnunnar í lás og ekkert gekk hjá heimastúlkum að komast nálægt markinu.

Breiðablik var mun meira með boltann en voru ekki að skapa sér neitt en vörn Stjörnunnar var afar þétt og góð. Öðru hvoru náðu svo gestirnir skyndisóknum þar sem þær Katrín Ásbjörnsdóttir og Jasmín Erla Ingadóttir voru í aðalhlutverki en þrátt fyrir ágæt upphlaup náðu þær ekki að koma sér í alvöru færi.

Besta færi Stjörnunnar fékk Alma Mathisen á 20. minútu leiksins en þá fékk hún boltann óvænt eftir mistök hjá Telmu Ívarsdóttur í marki Breiðabliks en Telma bjargaði sér og varði vel frá Ölmu.

Breiðablik reyndi mest að fara upp hægri kantinn í fyrri hálfleik þar sem þær Ásta Eir Árnadóttir og Birta Georgsdóttir voru öflugar en eftir eina slíka sókn fékk Melina Ayers frábært færi en skot hennar fór framhjá.

En Melina Ayers náði að setja boltann í netið á 41. mínútu en þá kom góð sending inn á teiginn sem Hildur Antonsdóttir framlengdi á Melinu sem setti boltann í netið af stuttu færi. Virkilega flott sókn hjá Blikum, 1:0.

Í lok hálfleiksins munaði svo minnstu að Stjarnan gerði sjálfsmark en Málfríður Erna Sigurðardóttir átti þá skalla aftur til Chanté Sandiford en Chanté var farin á stað á móti boltanum en sem betur fer fyrir gestina fór boltinn rétt framhjá.

Í seinni hálfleik hélt Breiðablik áfram að sækja og strax á 50. mínútu fékk Birta Georgsdóttir boltann úr innkasti og sólaði nokkra leikmenn Stjörnunnar og lét vaða og skoraði glæsilegt mark og kom þeim grænklæddu í 2:0.

Þriðja markið kom svo úr vítaspyrnu á 64. mínútu en þá var dæmd hendi á Málfríði Ernu Sigurðardóttur og Melina Ayers tók vítið og skoraði örugglega hjá Chanté Sandiford í marki Stjörnunnar.

Næsta verkefni Breiðabliks er leikur gegn KR á Meistaravöllum en sá leikur fer fram á föstudagskvöldið. Stjarnan mætir aftur á móti Íslandsmeisturum Vals í Garðabænum á sama tíma

Breiðablik 3:0 Stjarnan opna loka
90. mín. Gyða Krist­ín Gunn­ars­dótt­ir (Stjarnan) á skot framhjá Gyða Kristín með skot framhjá.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert