Áttum að vera búnir að gera út um leikinn

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, segir sínum mönnum til í …
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, segir sínum mönnum til í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, var mjög ánægður í samtali við blaðamann mbl.is strax eftir leik liðsins en Breiðablik vann Stjörnuna 3:2 í Bestu deild karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld. Breiðablik er á toppnum í deildinni með fullt hús stiga eftir fimm umferðir.

„Ég er mjög ánægður með frammistöðuna í kvöld. Fyrstu 75 mínútur leiksins fannst mér við vera með fullkomna stjórn á leiknum. Við áttum bara að vera búnir að gera út um hann fyrir löngu en síðan komu bara 15 mínútur af karakter, þjáningu og því sem fylgir því að vera í fótboltaliði. Það er mikill karakter að koma tilbaka eftir að verið 2:0 yfir í leiknum en missa þetta í 2:2.

Það er gríðarlega sterkt að vera með leikinn í höndunum, missa svo aðeins tökin og þeir jafna. Svo komum við bara tilbaka og það er auðvitað gríðarlega mikill styrkur. Ég hef sagt það áður. Það er til tvennskonar frammistaða. Frammistaða sem þú metur fótboltalegu eiginleikana og þeir voru frammúrskarandi góðir mínir menn í 75 mínútur, það vantaði bara hjá okkur að skora fleiri mörk úr þeim möguleikum sem við fengum.

En síðan kemur hin frammistaðan sem er hin mannlega frammistaða. Þá erum við að tala um karakter, vilji, samstaða og dugnað. Og það var svo sannarlega til staðar í kvöld þannig að ég er gríðarlega ánægður með þetta,“ sagði Óskar Hrafn.

Fimm sigrar í röð. Þú hlýtur að vera ansi sáttur með stöðuna?

„Frammistaðan er það sem skiptir máli. Þegar henni fylgja sigrar og þrjú stig þá er það frábært. Svo er bara málið að byrja að undirbúa sig fyrir leikinn gegn Víkingi á morgun,“ bætti Óskar Hrafn við en næsti leikur Breiðabliks í Bestu deild karla er á mánudagskvöldið gegn Víkingum í Víkinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert