Ég er í besta liðinu á Íslandi

Omar Sowe skorar sigurmarkið í kvöld.
Omar Sowe skorar sigurmarkið í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Gambíumaðurinn Omar Sowe var hetja Breiðabliks í 4:3-heimasigri á Fram í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld. Sowe kom inn á sem varamaður á 75. mínútu og skoraði sigurmarkið á 87. mínútu með fallegu skoti utan teigs.

„Til þess eru varamenn, að koma inn á og láta vita af sér og gera eins vel og þú getur. Það er æðislegt að ná í sigurinn og ég verð að þakka þjálfarateyminu fyrir traustið og fyrir að setja mig inn á. Þetta voru góð úrslit,“ sagði Sowe í samtali við mbl.is eftir leik.

Leikurinn í kvöld var mögnuð skemmtun og komst Breiðablik í 2:0 og 3:2 en Fram jafnaði í tvígang áður en Sowe skoraði sigurmarkið.

„Við byrjuðum vel og komumst í 2:0 en eins og við segjum í fótbolta þá er 2:0 hættuleg forysta. Við vildum halda áfram að gera vel en við komum flatir inn í seinni hálfleik og þeir refsuðu.

Við skoruðum en þeir skoruðu 30 sekúndum seinna. Við vorum ekki 100% klárir í kvöld og við hleyptum þeim inn í þetta þegar við áttum að vera með stjórn. Við börðumst hinsvegar allt til loka og fengum úrslitin sem við vildum,“ sagði hann.

Sowe skoraði annað mark skömmu áður en sigurmarkið kom en það stóð ekki þar sem hann var flaggaður rangstæður.

„Eftir leik kom Óskar upp að mér og við horfðum á endursýninguna. Ég var alls ekki í rangstöðu. Það hefði verið gott að fá tvö mörk en ég tek þetta eina, sérstaklega þar sem það var sigurmark.“

Sowe er ánægður með veru sína á Íslandi til þessa en hann er að láni frá New York Red Bulls í Bandaríkjunum. „Ég elska að vera hérna. Þetta er æðislegt land með æðislegu fólki. Ég er í besta liði á Íslandi og ég þarf að leggja mikið á mig til að reyna að sanna fyrir þjálfaranum að ég eigi skilið að vera í byrjunarliðinu. Það hefur verið erfitt en ég er að aðlagast,“ sagði Sowe.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert