Ég bjóst ekki alveg við þessu

Dagur Dan Þórhallsson miðjumaður Breiðabliks með boltann í leiknum í …
Dagur Dan Þórhallsson miðjumaður Breiðabliks með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Hinn óstöðvandi, Ísak Snær Þorvaldsson var að vonum sáttur þegar blaðamaður mbl.is talaði við hann eftir 2:1 sigur á Leikni Reykjavík í áttundu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í Breiðholtinu fyrr í kvöld. Ísak Snær skoraði bæði mörk Breiðabliks og átti frábæran leik.

„Þetta var barátta, eina sem skipti máli var hvaða lið var harðara í leiknum, bæði lið voru hörð en við tókum þetta á endanum. Leikurinn hefði getað farið beggja vegu en ég er sáttur með stigin þrjú.“

Ísak Snær skoraði sitt áttunda og níunda mark í deildinni í leiknum í kvöld. Aðspurður hvort þessi byrjun væri framar væntingum svaraði hann með stuttu og laggóðu svari:

„Ég bjóst ekki alveg við þessu, það er gaman að skora en svo lengi sem við vinnum þá er ég sáttur.“

Nú er komið að landsleikjahléi og liðin fá því smá pásu. 

„Við tökum þessu fríi og þeir sem fara í landsleikjaverkefni fara í það og standa sig þar. Við komum svo sterkir í næsta leik í deildinni gegn Val og undirbúum okkur vel fyrir það. Ég held að Valsmenn munu koma brjálaðir til baka eftir bikarleikinn. Við verðum að fara yfir þá og okkar leik og gíra okkur upp eins og fyrir alla leiki,“ sagði Ísak Snær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert