Svöruðum vel fyrir það sem er búið að vera í gangi

Birta Georgsdóttir í baráttunni í kvöld.
Birta Georgsdóttir í baráttunni í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér fannst við svara vel fyrir það sem er búið að vera í gangi,“ sagði Birta Georgsdóttir, leikmaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 6:1-sigur liðsins á Aftureldingu í Bestu deildinni í kvöld.

Breiðablik var töluvert sterkari aðilinn nánast allan leikinn, eins og lokatölurnar gefa til kynna. „Við lögðum upp með að koma inn í þennan leik og keyra á þær og við gerðum það fannst mér. Við höfum stundum átt erfitt með að koma boltanum yfir línuna, þrátt fyrir að skapa okkur fullt,“ sagði hún.

Birta átti sjálf sannkallaðan stórleik; skoraði eitt mark og lagði upp þrjú til viðbótar. Hún segir þetta sinn besta leik til þessa hjá Breiðabliki. „Ég myndi segja það, hingað til, held ég.“

Afturelding minnkaði muninn í 2:1 snemma í seinni hálfleik en Breiðablik svaraði með fjórum mörkum. „Mér fannst við halda dampi og við héldum áfram að keyra á þær, þótt við höfðum fengið á okkur mark.“

Breiðablik er nú í fimmta sæti með 12 stig, þremur stigum á eftir Val sem er í toppsætinu og með leik til góða. „Ég tek bara einn leik í einu og reyni að gera mitt besta í hverjum leik. Við í liðinu höldum líka áfram af okkar krafti og vonandi kemur það okkur langt,“ sagði Birta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert