Breiðablik upp fyrir Selfoss

Frá leiknum á Kópavogsvelli í kvöld.
Frá leiknum á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

Breiðablik er komið upp í fjórða sæti Bestu deildar kvenna í fótbolta eftir 1:0-heimasigur á Selfossi í 8. umferð í kvöld. Kópavogsliðið fór upp fyrir Selfoss með sigrinum og er nú með 15 stig. Selfoss er í fimmta með 14.

Breiðablik var töluvert sterkara liðið allan fyrri hálfleikinn og skapaði sér nokkur góð færi. Tiffany Sornpao stóð vaktina vel í marki Selfyssinga og átti stærstan þátt í að staðan var enn 0:0 þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður.

Hún kom hinsvegar engum vörnum við á 30. mínútu þegar Hildur Antonsdóttir skoraði með hnitmiðuðu skoti úr teignum, stöngin inn. Hildur var þá snögg að átta sig eftir undirbúning frá hinni bandarísku Taylor Ziemer. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks.

Seinni hálfleikur spilaðist svipað og sá fyrri. Breiðablik var mikið með boltann og aðallega á vallarhelmingi Selfoss. Heimakonum gekk hinsvegar ekki sérstaklega vel að skapa sér færi og Tiffany Sornpao í marki Selfyssinga þurfti ekki oft að taka á honum stóra sínum.

Hildur Antonsdóttir fékk fínt færi til að skora sitt annað mark og annað mark Breiðabliks stundarfjórðungi fyrir leikslok en hún skaut rétt framhjá úr góðri stöðu í teignum. Það reyndist síðasta góða færi leiksins og Breiðablik fagnaði eins marks sigri. 

Breiðablik 1:0 Selfoss opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert