Það leiðinlegasta sem ég geri

Ísak Snær Þorvaldsson var frábær í liði Blika í kvöld.
Ísak Snær Þorvaldsson var frábær í liði Blika í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

„Þetta var geggjaður sigur,“ sagði Ísak Snær Þorvaldsson, leikmaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 4:1-sigur liðsins gegn KA í Bestu deild karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í 10. umferð deildarinnar í kvöld.

„Það tók okkur smá tíma að opna þá en við nýttum þau færi sem við fengum og þetta var frábær frammistaða hjá öllu liðinu. Við hefðum getað skorað miklu fleiri mörk að mínu mati en ef ég mætti velja, þá hefði ég frekar viljað halda markinu hreinu en að skora fleiri mörk.

Það er eins og það er og því verður víst ekki breytt eftir á. Núna er það bara næsti leikur. Við ætlum okkur stóra hluti og núna þurfum við að halda áfram á sömu braut,“ sagði Ísak.

Höskuldur Gunnlaugsson og Hallgrímur Mar Steingrímsson eigast við í Kópavoginum …
Höskuldur Gunnlaugsson og Hallgrímur Mar Steingrímsson eigast við í Kópavoginum í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

Frábær liðsheild

Ísak tók út leikbann í síðasta leik Blika gegn Val, þar sem Valsmenn unnu 3:2-sigur á Hlíðarenda eftir að hafa skorað sigurmarkið í uppbótartíma. Þetta var fyrsta tap Blika á tímabilinu.

„Valsleikurinn var góður hjá liðinu og sigurinn hefði getað dottið báðum megin á Hlíðarenda. Þetta féll ekki með okkur þá en þeir geta alveg unnið án mín. Það eina sem ég geri er að koma boltanum yfir línuna. Það var mjög erfitt að horfa á þann leik úr stúkunni og það leiðinlegasta sem ég geri er að horfa á liðið, sem ég á að vera að spila fyrir, úr stúkunni.“

Blikar eru með 27 stig í efsta sæti deildarinnar og 8 stiga forskot á toppnum.

„Það eru allir með sín hlutverk á hreinu og það er magnað að vera í liði þar sem takturinn og tengingin er svona mikil á milli manna. Liðsheildin er frábær og ég er virkilega ánægður með að vera hluti af þessum hópi,“ bætti Ísak við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert