Ellefu stiga forskot Breiðabliks eftir stórsigur

Mikkel Qvist miðvörður Breiðabliks hefur betur gegn Atla Sigurjónssyni KR-ingi …
Mikkel Qvist miðvörður Breiðabliks hefur betur gegn Atla Sigurjónssyni KR-ingi á Kópavogsvellinum í kvöld. mbl.is/Eggert

Breiðablik er komið með ellefu stiga forskot á toppi Bestu deildar karla í fótbolta eftir 4:0-heimasigur á KR á Kópavogsvelli í kvöld. Græna liðið úr Kópavogi er komið með 30 stig úr ellefu leikjum. KR er enn í sjötta sæti með 16 stig.

KR byrjaði betur og var meira með boltann í upphafi leiks og skapaði sér fín færi. Það kom því gegn gangi leiksins þegar Viktor Karl Einarsson skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Breiðablik á 24. mínútu. Hann slapp þá einn í gegn eftir sendingu frá Jasoni Daða Svanþórssyni. Rétt á undan átti Finnur Tómas Pálmason slaka sendingu, sem skapaði mikla hættu.  

Í kjölfarið tók við sama mynstur. KR var mikið með boltann en tókst illa að skapa virkilega gott færi. Breiðablik refsaði skömmu fyrir hálfleik þegar Beitir Ólafsson í marki KR tók Ísak Snæ Þorvaldsson niður innan teigs og Erlendur Eiríksson dæmdi víti. Höskuldur Gunnlaugsson fór á punktinn og skoraði af öryggi á 39. mínútu. Staðan í leikhléi var því 2:0.

Breiðablik byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og Ísak Snær Þorvaldsson gerði þriðja markið á 55. mínútu er hann fylgdi á eftir skalla sem Beitir varði frá Mikkel Qvist. Blikar voru ekki hættir því fimm mínútum síðar bætti Jason Daði við fjórða markinu er hann kláraði af stuttu færi inn í teig eftir sendingu frá Ísaki.

Færin urðu ekki mikið fleiri og fjögurra marka sigur Breiðabliks varð staðreynd. 

Breiðablik 4:0 KR opna loka
90. mín. Kjartan Henry Finnbogason (KR) á skalla sem er varinn Laust og beint á Anton. Lítið gengið upp hjá KR í kvöld.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert