Ekki okkar dagur

Anton Ari Einarsson og félagar í Breiðablik voru að spila …
Anton Ari Einarsson og félagar í Breiðablik voru að spila sinn þriðja leik á sex dögum. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

„Þetta var bara ekki okkar dagur,“ sagði Anton Ari Einarsson, markmaður Blika í viðtali við mbl.is eftir 5:2 tap Breiðabliks gegn Stjörnunni í kvöld í Bestu deild karla í fótbolta.

„Það bara féll ekkert með okkur í dag og frammistaðan í takt við það,“ sagði Anton Ari en Blikar voru langt frá sínu besta í hörkuleik í Garðabæ í kvöld.

Þrír dagar eru síðan Breiðablik spilaði gegn Basaksehir í Sambandsdeildinni í erfiðum leik á Kópavogvelli og sex dagar eru frá síðasta leik þeirra í deildinni en á milli síðasta leiks og þennan gerði Óskar Hrafn, þjálfari Breiðabliks, einungis eina breytingu á liði sínu . 

Fannst þér þið ennþá þreyttir eftir síðasta leik?

„Nei það er ekki ástæðan held ég. Þetta er allt öðruvísi fyrir mig en strákana, þeir hlaupa 20 sinnum meira en ég og menn eflast bara við að spila þessa Evrópuleiki. Ég held að þreyta hafi ekki verið ástæðan fyrir því að það fór sem fór,“ sagði Anton en Blikar voru að spila sinn þriðja leik í vikunni.

Blikar unnu ÍA 3:1 á mánudaginn en töpuðu síðan 1:3 gegn Basaksehir á fimmtudaginn. Anton sagði að tapið í síðasta leik hafi ekki haft áhrif á hausinn á þeim inn í þennan leik. „Alls ekki, þetta var bara einn af þessum dögum þar sem þetta féll bara ekki með okkur,“ sagði Anton.

Næsti leikur Blika er aftur gegn Basaksehir en er í þetta skipti útileikur í Tyrklandi í Sambandsdeildinni næstkomandi fimmtudag. „Við förum út á þriðjudaginn og munum undirbúa okkur eins vel og við getum fyrir þennan leik. Okkur fannst leikurinn á Kópavogsvelli spilast þannig að við eigum ennþá fullan séns þrátt fyrir tapið og við förum bjartsýnir inn í næsta leik, það þýðir ekkert annað,“ sagði Anton Ari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert