Við notum það ekki sem afsökun

Júlíus Magnússon á Framvellinum í kvöld.
Júlíus Magnússon á Framvellinum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Júlíus Magnússon, fyrirliði Víkings, var skiljanlega svekktur þegar blaðamaður mbl.is náði tali af honum eftir 3:3 jafntefli gegn Fram í Bestu deild karla í knattspyrnu á Framvellinum í kvöld.

Eftir að hafa lent 2:0 undir náðu Víkingar að snúa taflinu við og komast í 3:2 forystu fram á síðustu mínútur leiksins. Júlíus var ánægður með spilamennsku Íslandsmeistaranna, en ekki mörkin sem liðið fékk á sig. „Við erum fjórum, fimm sinnum einn á móti markmanni í fyrri hálfleik en erum samt marki undir í hléinu. Við erum mikið með boltann og þrýstum þeim vel niður, ég er ekki óánægður með frammistöðuna heilt yfir en kannski frekar þessi mörk sem við fáum á okkur.“

Víkingar spiluðu erfiðan leik í Evrópukeppni gegn pólska stórliðinu Lech Poznan á fimmtudaginn og mæta því liði aftur í Póllandi eftir nokkra daga. Júlíus vildi þó ekki kenna þéttri dagskrá um úrslitin í kvöld. „Það getur auðvitað spilað inn í, en við notum það ekki sem afsökun. Við viljum frekar spila fleiri leiki heldur en færri, þetta er það skemmtilegasta sem maður gerir.“

Þá var jöfnunarmark Fram á 87. mínútu ansi umdeilt en Brynjar Gauti Guðjónsson skóflaði boltanum í markið af stuttu færi, mögulega úr höndunum á Ingvari Jónssyni, markmanni Víkinga. „Mér fannst Ingvar vera með vald á boltanum, að mínu mati. Svo kann ég kannski ekki alveg á reglurnar og er auðvitað líka smá hlutdrægur en mér fannst hann vera með boltann.“

Víkingar misstu þar með af góðu tækifæri til að saxa á forystu Breiðabliks á toppi deildarinnar en Blikar töpuðu gegn Stjörnunni í kvöld. „Þetta er enn þá meira svekkjandi nú þegar þú segir mér það. Þetta var tækifæri til að setja smá pressu á þá, en það er nóg af leikjum eftir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert