Hólmar rífur hann bara niður

Jón Þór Hauksson
Jón Þór Hauksson Ljósmynd/Kristinn Steinn

Jón Þór Hauksson þjálfari ÍA var að vonum svekktur eftir 1:2-tap gegn Val í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld. ÍA er neðst í deildinni með átta stig og í miklu brasi. Jón Þór var þó ánægður með frammistöðu sinna manna í kvöld, þrátt fyrir að hafa ekki fengið nein stig.

„Krafturinn og orkan sem við lögðum í leikinn var góð og karakterinn var góður en auðvitað er það áfall að fá mark á sig snemma í seinni hálfleik. Mér fannst við svara því vel og komum okkur inn í leikinn og fengum auðvitað dauðafæri til þess að jafna leikinn en náum ekki að nýta það og Valsararnir ganga á lagið og skora annað markið strax á eftir og það var þannig lagað tvöfalt áfall.

Aftur finnst mér við svara því nokkuð vel og komum okkur inn í leikinn aftur og ég verð bara að hrósa liðinu að hafa ekkert gefist upp heldur héldu áfram að reyna.

Jóni Þóri fannst vanta yfirvegun til á sóknarhelming ÍA til að skora annað markið sem liðið þurfti. 

„Oft vantaði smá yfirvegun í sóknarleiknum á síðasta þriðjungi vallarins, síðustu sendinguna og oft fannst mér við ekki nýta færin sem við fengum til að komast á bakvið vörn Vals og fannst við oft á tíðum klaufar. Eins og ég segi þá var ákvarðanatakan á síðustu sendingunni ekki nægilega góð og ég er gríðarlega svekktur eftir þessi úrslit í dag“

Jón Þór var alls ekki sáttur dómara kvöldsins en Hólmar Örn Eyjólfsson hefði mögulega átt að fá rautt spjald í tvígang þegar hann sló Eyþór Aron Wöhler fyrst í magann og svo í bringuna síðar í leiknum.

„Ég er gríðarlega svekktur með dómgæsluna hérna í kvöld, mér fannst gríðarlega stór atriði falla með Val. Við áttum að fá víti snemma í leiknum þegar að Eyþór er rifinn niður þegar hann er að koma sér í fínt hlaup í fyrirgjafarstöðu og Hólmar rífur hann bara niður og það er bara víti og ekkert annað.

Eins þegar að Hólmar slær hann, þetta er beint fyrir framan okkur og þeir vilja meina það að fyrst að hann sló hann ekki í andlitið að þá er það ekki rautt spjald, ég þekki ekki þau knattspyrnulög um hvort þetta megi. Við svosem getum ekkert stjórnað því og mér fannst strákarnir gera vel í því mótlæti og hvernig þeir brugðust við því en því miður þá skilaði það okkur engu í dag,“ sagði hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert