Toppliðið tapaði stigum

Úr leiknum í Árbænum í kvöld.
Úr leiknum í Árbænum í kvöld. Ljósmynd/Arnþór Birkisson

Fylkir og topplið FH gerðu 1:1 jafntefli í 1. deild kvenna í knattspyrnu í Árbænum í kvöld. 

Elísa Lana Sigurjónsdóttir kom Hafnfirðingum yfir eftir þriggja mínútna leik. Aldís Gunnlaugsdóttir, markvörður FH, setti hinsvegar boltann í eigið net og jafnaði metin fyrir Fylkisstúlkur á 48. mínútu. 

Fimm marka veisla var á Kópavogsvelli er Augnablik og Víkingur úr Reykjavík mættust. Christabel Oduro setti eitt og Bergdís Sveinsdóttir tvö til að koma Fossvogsliðinu þremur mörkum yfir eftir 55. mínútna leik. Katla Guðmundsdóttir og Harpa Helgadóttir minnkuðu þó muninn fyrir Kópavogsliðið en það dugði ekki og lokatölur því 2:3. 

FH er enn á toppnum með 33 stig eftir 13 leiki en Fylkir er í sjöunda sæti með 12 stig. Víkingur er í fjórða sæti með 26 stig og Augnablik í því sjötta með 12 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert