Góður endurkomusigur Eyjakvenna

Hart barist í leiknum í kvöld.
Hart barist í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Það var blautt og kalt þegar ÍBV tók á móti KR í 13. umferð Bestu deild kvenna í fótbolta í dag. Lokatölur urðu 3:1, ÍBV í vil.

Fyrri hálfleikur var heldur tíðindalítill en það var á 11. mínútu sem KR tókst að galdra fram mark eftir flotta skyndisókn. Það var Marcella Barberic sem náði að lauma sér fram fyrir varnarmann ÍBV og lagði boltann snyrtilega í netið. Staðan orðin 0:1 fyrir KR.

KR var með yfirhöndina í fyrri hálfleiknum og 0:1-staðan var sanngjörn þegar leikmenn héldu til búningsklefa.

Hálfleiksræðan í klefa Eyjakvenna hefur haft tilætluð áhrif því þær hvítklæddu komu tvíefldar til leiks í seinni hálfleiknum. Tvær skiptingar voru gerðar hjá ÍBV í hálfleik sem virtust hafa góð áhrif á spilamennsku liðsins. Þær Kristín Erna Sigurlásdóttir og Hanna Kallmaier komu inn á fyrir þær Helenu Jónsdóttir og Þóru Björg Stefánsdóttir.

Það var einmitt umrædd Hanna Kallmaier sem jafnaði metin fyrir Eyjakonur á 75. mínútu eftir glæsilegt skot. Hún lék á varnarmenn KR og hamraði boltanum í fjærhornið með vinstri. Staðan orðin 1:1.

Á 69. mínútu átti sér stað skipting sem Eyjakonur áttu ekki eftir að sjá eftir. Þá fór Viktorija Zaicikova meidd af velli og Þórhildur Ólafsdóttir kom inná. Þórhildur átti eftir að stimpla sig vel inn á lokamínútum þessa leiks.

Á 83. mínútu átti Þórhildur stoðsendinguna þegar Ameera Hussen átti skot að marki KR. Boltinn fór þá í varnarmann KR, breytti um stefnu og endaði í netinu. Staðan orðin 2:1, ÍBV komið yfir og fögnuðu Eyjakonur samkvæmt því.

Það var svo í uppbótartíma sem sending kom inn fyrir vörn KR þar sem Þórhildur Ólafsdóttir laumaði sér í gegn og lagði boltann í markið. Staðan orðin 3:1 fyrir ÍBV og urðu það lokatölur í kvöld.

Það voru nokkuð sanngjörn úrslit miðað við gang leiksins. KR var betra liðið í fyrri hálfleik en Eyjakonur tóku völdin í þeim seinni og uppskáru samkvæmt því.

Úrslitin þýða að ÍBV er nú með 21 stig og að berjast um 4. sætið við Þrótt úr Reykjavík. KR er hinsvegar í neðsta sætinu með 7 stig og þurfa að fara að girða sig í brók.

Næsti leikur hjá KR er heimaleikur á móti Val. Næsti leikur ÍBV er útileikur á móti Þrótti og segja má að það séu 6 stig í boði í þeim slag

ÍBV 3:1 KR opna loka
90. mín. Uppbótartími 4 mínútur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert