„Höfum ekki fengið eitt einasta stig eftir hlé“

KR-ingar fagna marki sínu í kvöld.
KR-ingar fagna marki sínu í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Ísabella Sara Tryggvadóttir spilaði í framlínu KR þegar liðið heimsótti ÍBV á Hásteinsvöll í 13. umferð Bestu deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

KR var í níunda sæti með sjö stig fyrir leikinn og var liðið ekki búið að eiga góða byrjun eftir landsleikjahlé.

„Gott að vera byrjaðar aftur en svekkjandi hvernig við erum að byrja. Við höfum ekki fengið eitt einasta stig eftir hlé. Við erum búnar að vera að spila vel en vantar alltaf bara þetta litla. Seinni hálfleikarnir hjá okkur hafa ekki skilað okkur neinu,“ sagði Ísabella Sara í samtali við mbl.is eftir leik.

KR voru betri aðilinn í fyrri hálfleiknum í leiknum í kvöld en svo tóku Eyjakonur yfir í seinni hálfleik.

„Já við vorum betri í fyrri, hefðum getað skorað tvö mörk í viðbót og svekkjandi að markmaðurinn hjá þeim hafi varið með höndum fyrir utan teig. Það fellur bara ekkert með okkur,“ bætti hún við.

Á sama tíma og KR atti kappi við ÍBV var botnslagur á Akureyri þar sem Þór/KA tók á móti Aftureldingu. Fyrir leikinn var Afturelding í neðsta sætinu með 6 stig en Þór/KA í því áttunda með 10 stig. Lokatölur í þeim leik voru 1:0 Aftureldingu í vil sem þýðir að KR eru komnar í neðsta sætið með 7 stig.

„Við þurfum bara að halda áfram. Afturelding er að safna stigum og komast þar af leiðandi fyrir ofan okkur og eiga einn leik inni þannig að við þurfum bara að fara að klára okkar leiki,“ sagði Ísabella Sara.

Næsti leikur liðsins er á móti Val á heimavelli.

„Það er ekkert annað í boði en að sækja þrjú stig þar, við bara þurfum þessi þrjú stig,“ sagði hún að lokum í samtali við mbl.is.

Leikurinn fer fram á Meistaravöllum þann 24. ágúst klukkan 18. Spennandi verður að sjá hvort KR-ingar nái að næla sér í þrjú stig þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert