Sýnir bara karakterinn í liðinu

Agla María Albertsdóttir, Betsy Hassett og Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir í …
Agla María Albertsdóttir, Betsy Hassett og Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir í leiknum í kvöld, mbl.is/Arnþór

„Mér fannst við yfirspila þær,“ sagði reynslumikla Stjörnukonan Málfríður Erna Sigurðardóttir í samtali við mbl.is eftir leik Stjörnunnar og Breiðabliks í Bestu deild kvenna í fótbolta í Garðabænum í kvöld.

„Þetta er svekkjandi en við gáfust samt aldrei upp og héldum alltaf áfram. Mér fannst við eiga sigurinn skilið. Við yfirspiluðum þær mjög mikið í seinni hálfleik þannig þetta var svekkjandi, en samt gott líka.“ 

Málfríður Erna Sigurðardóttir.
Málfríður Erna Sigurðardóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Stjarnan skoraði jöfnunarmark á 89. mínútu er Aníta Ýr Þorvaldsdóttir setti boltann í netið. Málfríður hrósaði liði sínu fyrir það. 

„Þetta sýnir bara styrkleikann í liðinu og hvað liðið er orðið gott. Við spilum vel saman og eins og ég segi yfirspilum þær í síðari hálfleik þannig það er mjög svekkjandi að fá þessi mörk á okkur.  

Það er mjög sterkt að koma svona til baka, það sýnir bara karakterinn í liðinu. Við verðum að byggja ofan á þetta og halda áfram. Það er mjög stutt á milli leikja, við erum að spila í undanúrslitum í bikar á föstudaginn gegn Val og og verðum að halda áfram á þessari braut. 

Nú þurfum við að taka góða endurhæfingu fyrir næsta leik. Það er þétt spilað og bara tveir dagar á milli þannig við þurfum bara að halda áfram,“ sagði Málfríður að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert