„Alrangt að ég hafi verið að strá salti í sár nokkurs manns“

Sveinn Arnarsson og Arnar Grétarsson á hliðarlínunni.
Sveinn Arnarsson og Arnar Grétarsson á hliðarlínunni. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Knattspyrnudómarinn Sveinn Arnarsson ritaði pistil á Facebook-síðu sinni í dag, þar sem hann þvertekur að hafa verið að strá salti í sár Arnar Grétarssonar, þjálfara KA, er hann lét sjá sig í KA-heimilinu daginn eftir leik KA og KR í Bestu deildinni.

Arnar fékk rautt spjald og fimm leikja bann fyrir framkomu sína í garð Sveins eftir leik KA og KR í Bestu deild karla í fótbolta 2. ágúst, þar sem hann var gríðarlega ósáttur við dómgæsluna í leiknum.

Arnar missti stjórn á skapi sínu og lét ófögur orð um Svein falla. Degi síðar fór Sveinn með son sinn á æfingu og kom við í KA-heimilinu, sem Arnar virðist hafa verið ósáttur með.

„Heilt yfir leggja dómarar það ekki í vana sinn, og ég tala nú ekki um eftir svona atvik, að fara beint upp og að nudda salti í sárin,“ sagði Arnar við hlaðvarpið Þungavigtina, aðspurður um samskipti sín og Arnars í KA-heimilinu daginn eftir leik.

Sveinn þvertekur fyrir þessi orð Arnars:

„Ég á barn, tíu ára dreng, sem æfir knattspyrnu með KA. Í hádeginu, þriðja ágúst, daginn eftir umræddan knattspyrnuleik ég með barn mitt á knattspyrnuæfingu. Aðstoðaði ég hann í anddyri félagsheimilis liðsins við að klæða sig í knattspyrnuskó og hnýta skóþveng sinn þar sem virkilega kalt var í veðri og barnið loppið á fingrum.

Ég náði mér því næst í kaffibolla og þar næst gáði ég hvort framkvæmdastjórinn væri við. Á þeim tíma kom þjálfari KA að mér. Þau orð sem þar voru látin falla í minn garð voru alls ekki neitt kurteisishjal. Hegðun sem þessi, bæði á knattspyrnuvelli og sér í lagi daginn eftir leik, er ekki íslenskri knattspyrnu til framdráttar. 

Það er því alrangt að ég hafi á nokkurn hátt verið að strá salti í sár nokkurs manns. Ég einfaldlega tók við afsökunarbeiðni og mælti mér mót við frkv.stjóra áður en ég ætlaði að horfa á barn mitt æfa knattspyrnu. Menn verða að taka ábyrgð á eigin hegðum með öðrum hætti en að gera það eitthvað tortryggilegt að ég sé í KA-heimilinu daginn eftir leik, þegar ég kom þangað annars vegar með son minn á æfingu og hins vegar til að hitta á frkv. stjóra félagsins, sem getur staðfest það,“ skrifaði Sveinn m.a. á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert