Valur af öryggi í bikarúrslit

Ásdís Karen Halldórsdóttir með boltann í leiknum í kvöld.
Ásdís Karen Halldórsdóttir með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

Valur leikur til úrslita um Mjólkurbikar kvenna í fótbolta eftir öruggan 3:1-sigur á Stjörnunni á útivelli í undanúrslitum í kvöld. Cyera Hintzen gerði tvö mörk Valskvenna, sem skoruðu þrjú mörk í fyrri hálfleik gegn engu hjá Stjörnunni.

Valskonur fóru langt með að gera út um leikinn í fyrri hálfleik, því staðan í hálfleik var 3:0. Valur byrjaði vel og skapaði sér nokkur færi í upphafi leiks og það skilaði sér í fyrsta markinu á 9. mínútu þegar Mist Edvardsdóttir stýrði boltanum í netið með höfðinu eftir misheppnað skot frá Andreu Mist Pálsdóttur.

Eftir það róaðist leikurinn nokkuð og kom það nánast upp úr þurru þegar hin bandaríska Cyera Hintzen gerði annað markið á 25. mínútu eftir afar slæma sendingu til baka frá Málfríði Ernu Sigurðardóttur, sem var að leika gegn sínu gamla liði.

Hintzen var ekki hætt, því hún gerði annað markið sitt og þriðja mark Vals ellefu mínútum síðar er hún slapp ein í gegn eftir stórglæsilega sendingu frá Ásdísi Karen Halldórsdóttur og kláraði af öryggi.

Valskonur voru nær því að bæta við mörkum í seinni en Stjarnan að minnka muninn og fékk Hintzen m.a. fín færi til að skora þriðja markið sitt. Allt kom hinsvegar fyrir ekki hjá Val. Jasmín Erla Ingadóttir minnkaði muninn með sárabótarmarki fyrir Stjörnuna í uppbótartíma og þar við sat.

Valur mætir Breiðabliki eða Selfossi í úrslitum, en þau mætast á Selfossi á morgun.  

Stjarnan 1:3 Valur opna loka
90. mín. Jasmín Erla Inga­dótt­ir (Stjarnan) skorar 1:3 - Stjarnan minnkar muninn! Jasmín með skot úr teignum og boltinn fer einhvern veginn undir Söndru og í netið. Líklegast of lítið og of seint fyrir Stjörnuna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert