Við áttum geggjaðan leik

Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir með boltann í kvöld.
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir með boltann í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

„Við áttum geggjaðan leik,“ sagði Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir 3:1-sigur liðsins á Stjörnunni á útivelli í undanúrslitum Mjólkurbikarsins í fótbolta í kvöld.

Valskonur gáfu afar fá færi á sér í kvöld og áttu sigurinn skilið. Stjarnan klóraði í bakkann í lokin, en Valsliðið hefði getað bætt við fleiri mörkum.

„Við lásum það vel hvernig þær ætluðu að spila. Við spiluðum virkilega góðan varnarleik og skoruðum svo mörk upp úr því. Þær fengu svo engin opin færi, fyrir utan markið sem þær skora. Það er eina færið sem þær fá. Það var smá klúður hjá okkur að halda ekki hreinu, en við lékum heilt yfir frábærlega.

Pressan okkar og færslurnar okkar frá vörn í sókn var til fyrirmyndar. Við unnum saman frá aftasta til fremsta manns. Það skilaði sér. Við vorum fljótar að vinna boltann og sækja hratt á þær,“ útskýrði Þórdís.

Hún er á leiðinni í sinn annan bikarúrslitaleik, en árið 2018 þurfti hún að bíta í það súra epli að tapa í bikarúrslitum gegn Breiðabliki er hún lék með Stjörnunni.

„Ég spilaði bikarúrslitaleik árið 2018 með Stjörnunni einmitt. Við töpuðum þá, en það er gaman að fara aftur í bikarúrslit og við stefnum á sigur. Ég er mjög spennt. Það eru spennandi vikur fram undan. Við höldum áfram að einbeita okkur að deildinni og svo tökum við bikarinn. Það verður gott að spila á Laugardalsvelli. Við ætluðum okkur að gera þetta og við gerðum það saman sem lið,“ sagði Þórdís.

Hún hefur átt afar gott tímabil með Val til þessa og smellpassað inn í toppliðið. Hún er ánægð með gang mála hjá Hlíðarendafélaginu til þessa.

„Mér finnst það hafa gengið mjög vel. Liðið er frábært og þær hafa tekið vel á móti mér. Ofan á það byggist mikið sjálfstraust og Pétur hefur sýnt mér mikið traust. Ég hef lagt mikið á mig og hef þakkað fyrir traustið. Þessar stelpur eru rosalega góðar í fótbolta og hafa gert mig betri. Ég hef spilað með nokkrum í þessu liði áður og þær þekkja mig og ég þær og við erum að tengja vel saman,“ sagði Þórdís Hrönn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert