Njarðvíkingar aftur á sigurbraut

Njarðvík er í toppsætinu.
Njarðvík er í toppsætinu. Ljósmynd/Njarðvík

Eftir tvö töp í röð er topplið Njarðvíkur komið aftur á sigurbraut í 2. deild karla í fótbolta en liðið vann 3:1-heimsigur á KFA í dag.

Arnar Helgi Magnússon og Bergþór Ingi Smárason komu Njarðvíkingum í 2:0 í fyrri hálfleik og þannig var staðan í leikhléi.

Magnús Þórir Matthíasson fékk beint rautt spjald hjá Njarðvík á 53. mínútu en það kom ekki að sök því skoski varnarmaðurinn Marc McAusland kom Njarðvíkingum í 3:0 á 59. mínútu.

Marteinn Már Sverrisson lagaði stöðuna fyrir Austfirðinga á 76. mínútu en nær komust þeir ekki. Njarðvík er með fimm stiga forskot á Þrótt úr Reykjavík á toppnum og ellefu stigum á undan Völsungi í þriðja sæti þegar sex umferðir eru eftir.

Einhverjir Austfirðingar gátu fagnað í dag því Höttur/Huginn vann 5:0-heimasigur á Reyni frá Sandgerði. Stefán Ómar Magnússon og Matheus Gotler komu Hetti/Hugin í 2:0 í fyrri hálfleik og þeir Rafael Victor, Eiður Orri Ragnarsson og Hörvar Sigurgeirsson bættu allir við mörkum í seinni hálfleik.

Þá vann ÍR 2:0-heimasigur á Víkingi frá Ólafsvík. Jorgen Pettersen kom ÍR yfir á 58. mínútu og Bragi Karl Bjarkason innsiglaði sigur Breiðholtsliðsins á 72. mínútu og þar við sat.

Staðan í deildinni.
Staðan í deildinni. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert