Má segja að þetta hafi verið flugeldasýning

Tryggvi Hrafn Haraldsson í baráttunni við Eggert Aron Guðmundsson í …
Tryggvi Hrafn Haraldsson í baráttunni við Eggert Aron Guðmundsson í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

„Það má segja að þetta hafi verið flugeldasýning eftir að við lentum undir. Við skulduðum góða frammistöðu og við erum sáttir við þetta,“ sagði Tryggvi Hrafn Haraldsson, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir 6:1-sigur liðsins á Stjörnunni í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld.

Stjarnan komst yfir um miðjan seinni hálfleikinn en Valsmenn svöruðu á glæsilegan hátt og skoruðu sex mörk.

„Við ræddum fyrir leik að við ætluðum að halda áfram allan tímann, sama hvort við eða þeir komist yfir. Við gerðum það og þetta small í seinni hálfleik sérstaklega. Við sigldum þessu þægilega heim.“

Valsliðið hefur verið á góðri siglingu eftir að Ólafur Jóhannesson tók við og fengið tíu stig af tólf mögulegum og nú unnið þrjá leiki í röð.

„Þrír sigurleikir í röð. Við þurfum að fara að vinna leiki og klífa upp töfluna og allavega ná Evrópusæti. Vonandi höldum við þessu áfram og náum að vinna okkur áfram. Við höfum verið að reyna að halda boltanum, hafa svolítið gaman að þessu og spila góðan sóknarleik. Það hefur virkað undanfarið og maður er sáttur.“

Tryggvi skoraði tvö mörk í leiknum, en það seinna var stórglæsilegt mark, beint úr aukaspyrnu.

„Ég þarf að sjá þetta aftur. Ég var eiginlega byrjaður að fagna áður en ég sá hann í netinu. Ég var ósáttur við Jasper um daginn þegar hann var að vippa laust á markmanninn. Ég sagði við hann að ég ætlaði að taka þetta. Það fór sem betur fer svona,“ sagði Tryggvi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert