Ef hann fékk víti hefði ég átt að fá víti

Alex Freyr Elísson í leiknum í kvöld.
Alex Freyr Elísson í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Við erum bara hrikalega ánægðir og virkilega góðir í fótbolta,“ sagði Alex Freyr Elísson eftir 4:1 sigur Fram í kvöld gegn Leiknir R.

„Geggjuð frammistaða hjá okkur. Við vissum að þetta myndi vera alvöru leikur og mikil barátta til að byrja með. Þetta var erfiður leikur og ég fékk víti á mig en geggjað af strákunum að bakka mig upp og keyra á þá. Við skoruðum svona þrjú mörk á 10 mínútum, er bara mjög ánægður,“ sagði Alex Freyr í viðtali við Mbl.is eftir leikinn.

Alex Freyr fékk dæmt á sig víti fyrir litlar sakir á 59. mínútu eftir samstuð við Birgi Baldvinsson. „Ég þarf að sjá þetta aftur en ef þetta er víti þá átti ég að fá víti í fyrri hálfleik. Ég fékk ekki víti svo þetta var ekki víti,“ sagði Alex sem fór niður í teig Leiknis í fyrri hálfleik fyrir ennþá minni sakir en dæmir hver fyrir sig. 

Leikurinn var heldur rólegur í fyrri hálfleik en Framarar þurftu ekkert spark í rassinn til að koma inn þeim þrem mörum sem þeir skiluðu í seinni hálfleik.

„Nei svo sem ekki. Bara halda áfram að spila fótbolta og ekki „panikka“ þó þeir myndu keyra á okkur á fyrsta korterinu. Við áttum að halda ró og spila fótbolta eins og við gerðum og sýndum. Skiluðum fjórum mörkum, við erum hrikalega ánægðir og virkilega góðir í fótbolta.“

Nú eru fimm leikir þar til deildinni verður skipt upp í tvennt og Fram er aðeins þrem stigum frá KR í 6. sæti en liðin fyrir neðan það fara í botnbaráttuna.

„Markmiðið hefur verið efri hlutinn frá fyrsta leik svo það er bara að halda sér við planið og við erum bjartsýnir með það,“ sagði Alex Freyr eftir leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert