Sóknarmaðurinn var vinstri bakvörður: „Geri það sem mér er sagt“

Þorsteinn Már Ragnarsson í leik með KR gegn ÍBV í …
Þorsteinn Már Ragnarsson í leik með KR gegn ÍBV í Vestmannaeyjum fyrr í sumar. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Þorsteinn Már Ragnarsson átti góðan leik í stöðu vinstri bakvarðar þegar lið hans, KR, heimsótti Keflavík í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld. Þorsteinn Már leikur iðulega sem kantmaður eða framherji en þurfti að hlaupa í skarðið vegna forfalla í stöðunni.

„Þetta var bara hörkuleikur. Bæði liðin voru að sækja á fullu og fengu fullt af færum. Þetta eru örugglega bara sanngjörn úrslit þannig séð, að þetta hafi farið 0:0.

En við vorum samt klaufar að hafa ekki klárað þetta fannst mér, af því að við fengum fullt af færum til þess að klára þennan leik. Þeir reyndar líka en þetta hefði getað dottið báðum megin,“ sagði Þorsteinn Már í samtali við mbl.is eftir leik.

Spurður hvað honum, sóknarmanninum, hafi þótt um að leika í vinstri bakverði í kvöld sagði Þorsteinn Már:

„Það var áhugavert og bara skemmtilegt. Ég hef gaman að þessu og geri bara það sem mér er sagt. Ég spilaði hægri bakvörð síðast og vinstri bakvörð núna. Ég tek því fagnandi.“

Stöðurnar sem hann hefur leikið fyrir KR í sumar eru orðnar ansi margar. En hversu margar?

„Ég hef nú ekki talið það en þær eru orðnar þónokkuð margar. En á meðan ég er inni á vellinum er ég bara sáttur,“ sagði hann.

Mörkin koma í framhaldi

Með sigri hefði KR getað slitið sig vel frá Keflavík en þrjú stig skilja liðin enn að í sjötta og sjöunda sæti deildarinnar þar sem KR er með 25 stig og Keflavík 22 eftir jafntefli kvöldsins.

„Fyrir þennan leik ætluðum við að reyna að slíta okkur frá þeim en eins og ég segi var þetta hörkuleikur.

Það sem við þurfum að bæta og gerðum vel í síðustu leikjum er að klára færin og ákvarðanatökur á síðasta þriðjungi vallarins.

Það gekk ekki í dag og við þurfum kannski aðeins að skoða það aftur en heilt yfir var þetta fínn leikur hjá okkur,“ sagði Þorsteinn Már, spurður um hvað hefði betur mátt fara hjá KR í kvöld.

KR hefur gengið vel að undanförnu eftir fremur dapran fyrri hluta tímabils. Hvað hefur breyst hjá Vesturbæingum að undanförnu?

„Það sem við fórum í raun yfir var grunnvinnan, að hlaupa fyrir hvorn annan og hjálpa hvorum öðrum. Það var það fyrsta sem við hugsuðum.

Það var að berjast fyrir hvorn annan og það er það sem hefur verið að skila okkur þessum stigum og þessari baráttu, og þá koma náttúrlega mörkin í framhaldi af því,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert