Örlítið meiri seigla Keflvíkinga skilaði þremur stigum í Mosfellsbæ

Frá leiknum í kvöld.
Frá leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikið var haft fyrir stigunum þegar Afturelding og Keflavík mættust í Mosfellsbænum í kvöld er fram fóru síðustu leikir 13. umferðar efstu deildar kvenna í fótbolta, Bestu deildinni.  Mikið sótt en gestirnir suður með sjó hirtu þó öll stigin með 3:2 sigri.

Leikurinn fór frekar rólega af stað, reyndar nokkuð um hlaup en minna um færi.  Þau sem komu þó sköpuðu ekki mikla hættu en Keflavíkingar voru aðeins ágengari ef eitthvað er.  Allt þar til sókn Keflavík upp hægri kantinn gekk upp og Dröfn Einarsdóttir átti sendingu inn í markteig Mosfellinga þar sem Ana Paula Silva skoraði af stuttu færi.  Mínútu síðar átti Amelía Rún Fjeldsted skot af hægri kanti og nú datt boltinn ofan á slánna en Eva Ýr Helgadóttir markvörður Aftureldingar var reyndar alveg viðbúin.   Mosfellingar voru samt ekkert að gefast upp, sókn þyngdist aðeins og á 34. mínútu jafnaði Hildur Karítas Gunnarsdóttir þegar hún tók nýtti góða sendingu Ísafold Þórhallsdóttir með góða sókn inn fyrir vörn Keflvíkinga.  Þegar leið að leikhléi var Afturelding kominn meira inn í leikinn og sóknir að þyngjast.

Fjórar mínútur inn í síðari hálfleik átti Amelía Rún góða sendingu frá hægri kanti í hendurnar á Evu Ýr markverði Aftureldingar en hún hélt ekki boltanum en félagar hennar náðu að hreinsa frá markinu.  Á 53. mínútu kom svo Eyrún Vala Harðardóttir Mosfellingum yfir í 2:1 þegar hún fékk sendingu Hildar Katrínu í miklu moða á markteigslínu og skoraði af stuttu færi en hún kom mínútu fyrr inná sem varamaður.  Aðeins 6 mínútum síðar var Keflavík búið að jafna, það gerði Aníta Lind Harðardóttir fyrirliði Keflvíkinga úr víti eftir boltinn hrökk frá Keflvíkingnum Dröfn Einarsdóttir í hönd Mackenzie Cherry,  staðan aftur jöfn 2:2.   Keflavík ætlaði sér meira, sóknir þeirra voru þyngri og á 75. mínútu gekk sókn Keflvíkinga upp þegar Amelía Rún skallaði boltann hægra megin í teiginn á Dröfn Einarsdóttir, sem lagði boltann fyrir sig og þrumaði í markið út við stöng.   Litlu munaði að Afturelding næði að jafna aftur á 87. mínútu en þá varði Samantha í marki Keflavíkur frábært skot Ísafoldar alveg út við stöng.  Siðustu mínúturnar sóttu Mosfellingar stíft og oft við að komast í færi en Keflvíkingar sluppu fyrir horn.

Úrslitin breyta ekki stöðu liðanna, Keflavík enn í því sjöunda en Afturelding í 9. sæti, fallsæti. Í næstu umferð fær Keflavík Selfyssinga í heimsókn og Afturelding heldur í Garðabæinn gegn Stjörnunni.

Afturelding 2:3 Keflavík opna loka
90. mín. Saga Rún Ingólfsdóttir (Keflavík) kemur inn á
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert