„Þurfum að gerast sálfræðingar“

Það gengur lítið Perry Mclachlan og Þór/KA.
Það gengur lítið Perry Mclachlan og Þór/KA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Þetta var erfiður leikur. Við fengum mark snemma á okkur og vorum lengi í gang, það er spurning um hugarfar. Þriðja leikinn í röð finnst mér úrslitin ekki endurspegla frammistöðu okkar,“ sagði Perry Mclachlan, þjálfari Þórs/KA, eftir 2:0 tap gegn Selfoss í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í kvöld á Selfossi.

„Við spiluðum vel á móti Val, töpuðum þar, höfðum yfirhöndina á móti Aftureldingu, töpuðum þar, vorum mikið með boltann og áttum fínar sóknir í kvöld en við töpuðum. Lykilatriði í leiknum í kvöld var þegar Tiffany [Sornpao] varði frá Huldu Ósk í seinni hálfleiknum. Hefði sá bolti farið inn þá hefði það getað gefið okkur kraftinn sem þurfti til að klára leikinn,“ sagði Perry ennfremur.

Þór/KA endar í fallsæti eftir leiki kvöldsins ef Afturelding nær í stig gegn Keflavík.

„Núna er þetta bara andleg barátta framundan. Það eru gæði í liðinu og við höfum sýnt það með okkar spilamennsku. Við getum verið stolt af baráttunni í síðustu leikjum en úrslitin hafa ekki verið að falla með okkur. Við þjálfararnir þurfum að gerast sálfræðingar og komast inn í höfuðið á leikmönnum til þess að komast yfir þessar hindranir, því gæðin eru svo sannarlega til staðar,“ sagði Perry að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert