Fjölnir að missa af lestinni – Þróttarar fallnir

Fjölnismenn töpuðu fyrir Vestan.
Fjölnismenn töpuðu fyrir Vestan. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Fjölnismenn eru svo gott sem úr leik í baráttunni um sæti í efstu deild að ári eftir slæmt 1:4-tap gegn Vestra í 1. deild karla í knattspyrnu, Lengjudeildinni, á Olísvellinum á Ísafirði í kvöld.

Nicolaj Madsen, Pétur Bjarnason, Vladimir Tufegdzic og Hans Guðmundsson skoruðu mörk Vestra en Lúkas Heimisson minnkaði muninn fyrir Fjölni í stöðunni 0:3.

Fjölnir er nú með 30 stig í fjórða sætinu, sjö stigum minna en HK, sem er í öðru sætinu en Vestri er með 25 stig í því sjöunda.

Þá reyndist Loic Ondo hetja Kórdrengja þegar liðið vann 1:0-sigur gegn Selfossi á Jáverk-vellinum á Selfossi en Kórdrengir eru með 24 stig í áttunda sætinu á meðan Selfoss er í því sjötta með 25 stig.

Aron Jóhannsson, Tómas Ásgeirsson og Sigurjón Rúnarsson skoraðu svo mörk Grindavíkur þegar liðið vann 3:1-sigur gegn KV á KR-velli í Vesturbæ en Grímur Jakobsson skoraði eina mark KV.

Grindavík er með 23 stig í níunda sætinu en KV er með 11 stig í ellefta sætinu og svo gott sem fallið en sigur Grindavíkur gerði það einnig að verkum að Þróttur úr Vogum er fallinn úr deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert