Þarf ekki alltaf að vera flókið, bara verja markið og troða svo inn einu

Jón Stefán á hliðarlínunni í kvöld.
Jón Stefán á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Jón Stefán Jónsson, annar tveggja þjálfara Þórs/KA, var að vonum sáttur með sitt lið eftir magnaðan 1:0-sigur á Þrótti fyrir norðan í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Ég er bara mjög stoltur af liðinu mínu í dag. Það var eitthvað verið að tala um það að við værum andlausar og við vildum bara sýna það að við værum það ekki. Þetta þarf ekkert alltaf að vera flókið, bara verja markið sitt og troða svo inn einu.“

Baráttan og viljinn í liði Þórs/KA í kvöld var til algjörrar fyrirmyndar og var greinilegt að liðið vildi sigurinn mikið.

„Það var einhver sem spurði á 60. mínútu hvor við yrðum ekki að fara að skipta en ég sagði bara nei, þær hlaupa bara þar til þær eru nánast dauðar inná vellinum.“

Það var þó meira en barátta og vilji í liðinu í kvöld. Það sýndi oft á tíðum frábæra spilamennsku og skapaði góð færi, eitthvað sem hefur kannski vantað í sumar.

„Algjörlega. Við kláruðum sóknirnar okkar, við vorum örugglega 35% með boltann en fáum að mínu mati hættulegri færi í leiknum. Við búum til fullt af tækifærum og tókum réttar ákvarðnir, sem var helsti munurinn frá síðustu leikjum.“

Mark Maríu Catharinu Ólafsdóttur Gros í kvöld var fyrsta mark liðsins frá því um miðjan júní, fyrir EM-pásuna. Augljóst var hversu mikið sjálfstraustið í liðinu jókst eftir að ísinn brotnaði.

„Ég man ekki hvað er langt síðan við komumst síðast yfir í leik. Þetta gefur okkur alveg ótrúlega mikið og gerir framhaldið svo miklu skemmtilegra. Við erum ekkert södd. Þú getur rétt ímyndað þér að fara í 18 daga pásu með svona sigur – það er svolítið annað en að vera í þessu veseni. Við erum ekkert öruggar eða neitt svoleiðis en þetta gefur okkur mikið.“

Tiffany McCarty var ekki í leikmannahópi Þórs/KA í kvöld heldur var hún skráð í liðsstjórn. Jón segir hana hafa spilað lengi í gegnum meiðsli.

„Hún er búin að vera meidd síðan eiginlega í byrjun júní. Hún píndi sig þar og við reyndum að hvíla hana í EM-pásunni og þá var hún orðin fersk en svo meiðist hún aftur á æfingu stuttu fyrir Valsleikinn. Hún pínir sig greyið í gegnum Aftureldingarleikinn og kom inná á móti Selfossi, svo ákváðum við bara saman að hún skyldi hvíla fram að næsta leik þar sem það er langt í hann.

Hún er auðvitað frábær leikmaður og ótrúlega góður liðsmaður þannig að það er svo sannarlega ekkert annað að en meiðsli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert