Búin að leggja virkilega hart að mér

Sólveig Jóhannesdóttir Larsen, lengst til hægri, kyssir bikarinn í leikslok.
Sólveig Jóhannesdóttir Larsen, lengst til hægri, kyssir bikarinn í leikslok. mbl.is/Óttar

„Mér líður frábærlega. Ég hef sjaldan verið betri,“ sagði Sólveig Jóhannesdóttir Larsen, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir að hún varð bikarmeistari í fótbolta með Val, eftir 2:1-sigur á Breiðabliki í bikarúrslitum á Laugardalsvelli í dag.

Breiðablik var með 1:0-forskot í hálfleik en Valsliðið var sterkara í seinni hálfleik og vann að lokum verðskuldaðan sigur.

„Við vorum þolinmóðari, við þorðum að spila boltanum. Það var smá stress í okkur í fyrri en við náðum að ná okkur niður á jörðina og spila okkar bolta. Í hálfleik töluðum við um að berjast meira, við vorum ekki alveg mættar. Við gerðum það svo sannarlega í seinni hálfleik. Ég fann á mér að við myndum vinna þetta,“ sagði hún.

Sólveig er uppalin hjá Breiðabliki og hún varð bikarmeistari með liðinu árið 2016, en sú upplifun var öðruvísi en í kvöld, þar sem hún lék allan leikinn. „Ég varð seinast bikarmeistari með þeim árið 2016. Ég var 15 ára þá og kom inn á í tíu mínútur. Í dag spilaði ég allan leikinn.“

Hún hefur lagt mikið á sig við að komast í byrjunarliðið hjá Val eftir dvölina í Mosfellsbænum, en hún átti ekki endilega von á að vera í þessari stöðu fyrir nokkrum vikum.

„Ég átti ekki von á því en ég er búin að leggja virkilega hart að mér og ég er ótrúlega fegin að hafa náð þessu. Ég fékk að spila hjá Aftureldingu. Við vorum þrjár í sömu stöðu og ég átti að fá að spila, njóta þess og fá að gera mistök, sem maður getur ekki gert í svona stóru liði. Pétur hefur séð að ég er með meira sjálfstraust og þá spilar maður betur,“ sagði Sólveig.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert