„Frábært að ná að klára þetta á lokamínútunni“ 

Logi Tómasson með boltann í leiknum í dag.
Logi Tómasson með boltann í leiknum í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Logi Tómasson, bakvörðurinn skemmtilegi í liði Víkings, var mættur í slaginn á ný þegar KA og Víkingur mættust á Greifavellinum í dag í Bestu-deildinni í fótbolta. Logi hefur misst af síðustu leikjum vegna meiðsla. 

Í leiknum mættust stálin stinn en Víkingar kreistu fram 3:2-sigur með marki sem kom þegar 90. mínúta leiksins var að renna sitt skeið.  

Faðir Loga, Tómas Hermannsson, gerði garðinn frægan með yngri flokkum KA á sínum tíma og kemur hann úr einni mestu KA-fjölskyldu sem þekkst hefur. Logi var fyrst spurður út í tengsl hans og föður hans við KA. 

„Ég er gegnheill Víkingur en pabbi er vissulega KA-maður. Hann hélt samt með okkur í þessum leik.“ 

Þetta var strembinn leikur, jafn og mikil barátta í báðum liðum. Það gat í raun allt gerst en það örlaði á þreytu í liðinu í seinni hálfleik þegar KA var með undirtökin og komst yfir, 2:1.  

„Þetta var mikið hark en baráttuandinn og liðsheildin skiluðu okkur yfir erfiðan hjalla og við náðum að finna einhvern aukakraft til að snúa þessu við. Það var bara frábært að ná að klára þetta á lokamínútunni. Þetta var langt frá því að vera besti leikurinn okkar og því er enn flottara að hafa náð að harka fram sigur. Það leit ekkert út fyrir það lengstum en svo kom sigurmarkið á hárréttum tíma.“ 

Þú ert búinn að vera frá í síðustu leikjum og þeir hafa allir endað í jafntefli. Nú ertu kominn til baka og það var ekki að spyrja að því. 

„Ég ætla nú ekki að segja að það sé mér að þakka. Það er bara gaman að vera kominn til baka og hjálpa liðinu inni á vellinum. Það er líka gaman að hafa loks unnið í deildinni. Það er orðið langt síðan síðasti sigurleikur kom.“ 

Nú þarf ég að spyrja þig út í atvik sem varð þegar KA jafnaði leikinn í 1:1. Þú varst að skýla boltanum út við endalínu en Steinþór Freyr Þorsteinsson komst í hann og potaði honum inn í teig þar sem Sveinn Margeir Hauksson kom aðvífandi og skoraði. Þú lást þar kylliflatur. Var nokkuð brot á Steinþór? 

„Ég veit það ekki. Þetta var bara lélegt hjá mér og ég hefði átt að sparka boltanum út af. Ég var eitthvað óákveðinn hvað ég ætti að gera. Þetta var örugglega ekki brot en ég reyndi að fá það dæmt. Við kláruðum leikinn og þessi mistök fara í reynslubankann.“ 

Sumarið hjá ykkur hefur verið mjög viðburðarríkt og leikir og ferðalög á hverju strái. Nú fenguð þið sex daga hvíld fyrir þennan leik. Munaði ekki mikið um það? 

„Það var mjög mikilvægt. Menn voru eiginlega búnir á því eftir langa törn og því var fínt að fá að hlaða batteríin fyrir þennan stórleik. Ef við hefðum ekki náð sigri hérna í dag þá hefði toppbaráttan bara verið búin hjá okkur. Nú erum við enn þá inni í henni og höfum trú á að við getum enn náð toppsætinu af Blikum. Það er nóg eftir af leikjum og innbyrðisleikir á milli efstu liðanna. Við sjáum hvað gerist.“ 

Ein að lokum; Er pabbi þinn eitthvað búinn að snúa upp á hendurnar á þér og segja að þú þurfir að fara norður til að spila fyrir KA í gula búningnum? 

„Hann segir það stundum í gríni en hefur aldrei sett neina pressu á mig. Við sjáum hvað gerist. Ég held að ég verði bara áfram í Víkingi“ sagði Logi léttur í bragði.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert