Gerði hluti sem ég átti örugglega ekki að gera

Karl Friðleifur fagnar marki með Erlingi Agnarssyni í kvöld.
Karl Friðleifur fagnar marki með Erlingi Agnarssyni í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér líður frábærlega og það eru miklar tilfinningar,“ sagði Karl Friðleifur Gunnarsson, leikmaður Víkings úr Reykjavík, í samtali við mbl.is eftir 3:0-sigur á Breiðabliki á útivelli í undanúrslitum Mjólkurbikarsins í fótbolta í kvöld.

Karl skoraði annað mark Víkings með fallegu viðstöðulausu skoti og fagnaði með því að stara á Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfara sinn hjá Breiðabliki á sínum tíma og fyrir framan stuðningsmenn Breiðabliks.

„Þetta var flott mark. Ég hitti hann vel í fyrsta og svo tekur einhver tilfinningarússibani við og ég fer í áttina að stúkunni og bekknum hjá þeim og gerði hluti sem ég átti örugglega ekki að gera. Ég sé örugglega eftir þessu þegar ég horfi á þetta á morgun.

Það voru einhver skilaboð í þessu. Blikar eru farnir að ala upp leikmenn sem fara í Víking og þeim líður ansi vel. Það eru einhver skilaboð í þessu. Það eru tilfinningar í þessu og þeir unnu okkur 3:0 heima,“ sagði Karl.

Hann þurfti að fara af velli í stöðunni 3:0 í fyrri hálfleik vegna meiðsla.

„Ég fékk væga tognun í lærið í leiknum á móti KR og mér var farið að líða eins og ég gæti farið í lærinu. Ég sagði við Arnar að það væri betra að fara út núna í staðinn fyrir að togna aftur og vera þá þrjá mánuði frá. Það var flott tímasetning að fara út af í stöðunni 3:0,“ sagði hann.

Þrátt fyrir að Víkingur hafi verið með 3:0 forystu og ekki gefið mörg færi á sér, leið Karli ekki vel á varamannabekknum.

„Mér leið alls ekki vel. Þá tók kvíðakastið yfir, eins og venjulega þegar ég horfi á leiki. Mér finnst betra að vera inn á. Þegar við vorum 2:1 undir á móti KR var ég allan tímann uppi í sofa heima, brjálaður. Það tók við algjört kvíðakast,“ sagði hann.

Víkingur er tíu stigum á eftir Breiðabliki og með leik til góða. Karl segir ríkjandi meistarana ekki hafa sungið sitt síðasta í titilbaráttunni. „Þetta eru skýr skilaboð. Augnablikið er með okkur núna og við viljum nýta það. Blikar voru líka á undan okkur í fyrra. Það getur allt gerst,“ sagði Karl Friðleifur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert