Aldrei spurning eftir rauða spjaldið

Viktor Karl Einarsson átti góðan leik í kvöld.
Viktor Karl Einarsson átti góðan leik í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viktor Karl Einarsson átti góðan leik fyrir Breiðablik í 5:2-sigrinum á Val í Bestu deild karla í fótbolta á Hlíðarenda í kvöld. Staðan í hálfleik var 2:2 en Breiðablik sigldi öruggum sigri í höfn í seinni hálfleik, eftir að Sebastian Hedlund hjá Val fékk beint rautt spjald um miðjan hálfleikinn.

„Í fyrri hálfleik vantaði meiri áræðni. Það vantaði smá upp á hjá okkur. Við komumst yfir þegar Dagur smellir honum og þá hélt ég við myndum sigla þessu þægilega, miðað við hvað þeir voru að spila aftarlega. Svo jafna þeir og þetta verður járn í járn í smá stund.

Við komumst svo yfir úr vítinu og eigum að sigla með forskotið inn í hálfleikinn en svo erum við bara sofandi og fáum á okkur mark. Eftir rauða spjaldið fannst mér þetta aldrei spurning,“ sagði Viktor við mbl.is um leikinn.

Hann viðurkennir að leikmenn Breiðabliks hafi verið ósáttir með 2:2 stöðu í hálfleiknum, eftir að hafa komist yfir í tvígang. „Við vorum svekktir. Það var lélegt að fara ekki með forystuna í hálfleikinn. Við þurftum bara að einbeita okkur í eina mínútu í viðbót. Við þurfum að gíra okkur aftur upp í seinni hálfleikinn og vinna leikinn.“

Staðan var 3:2 þegar Hedlund fékk rauða spjaldið og gengu Blikar á lagið eftir það. Viktor Karl átti stóran þátt í fjórða markinu, áður en hann skoraði það fimmta sjálfur. Bæði komu þau eftir að hann náði boltanum af Aroni Jóhannssyni.

„Við nýttum okkur þegar þeir reyndu að senda inn á miðjuna. Aron ætlaði að senda blindandi inn á miðjuna og ég var búinn að lesa það. Það sama gerðist þegar ég skoraði. Þeir höfðu litlu að tapa og tóku sénsa. Við vorum búnir að lesa það.“

Viktor viðurkennir að það sé eilítið erfitt að ná upp sömu áræðni í leikjum, nú þegar Íslandsmeistaratitilinn er í höfn.„Það er öðruvísi. Við förum í alla leiki til að vinna þá og við ætlum alltaf að gera okkar besta, en það vantar kannski smá áræðni, eins og sást í byrjun leiksins í kvöld. Þegar við náum að gíra okkur upp skiptir eiginlega engu máli hvað er undir. Við förum í þessa leiki til að vinna þá,“ sagði Viktor Karl Einarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert