Dagur skaut Valsmenn í kaf

Dagur Dan Þórhallsson skoraði þrennu.
Dagur Dan Þórhallsson skoraði þrennu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslandsmeistarar Breiðabliks eru komnir upp í 60 stig í Bestu deild karla í fótbolta eftir 5:2-útisigur á Val í næstsíðustu umferð efri hlutans í kvöld. Valur er enn í fimmta sæti með 35 stig.

Fyrri hálfleikurinn var mikil skemmtun og var staðan eftir hann 2:2. Breiðablik komst tvisvar yfir, en í bæði skiptin voru Valsmenn snöggir að jafna.

Dagur Dan Þórhallsson skoraði fyrsta mark leiksins á 24. mínútu er hann kláraði glæsilega eftir að hafa unnið boltann sjálfur á hættulegum stað. Sex mínútum síðar jafnaði Patrick Pedersen með góðri afgreiðslu eftir fallega stungusendingu frá Birki Heimissyni.

Breiðablik komst aftur yfir á lokamínútu fyrri hálfleiks. Sebastian Hedlund tók þá Viktor Karl Einarsson niður innan teigs og víti dæmt. Höskuldur Gunnlaugsson fór á punktinn og skoraði af öryggi.

Aðeins örfáum sekúndum síðar var Valur hins vegar búinn að jafna aftur, því Sigurður Egill Lárusson skoraði fallegt mark eftir undirbúning hjá Guðmundi Andra Tryggvasyni. Sigurður kláraði með glæsibrag með neglu í fjærhornið.

Dagur Dan skoraði enn fallegra mark á 10. mínútu seinni hálfleiks er hann negldi boltanum í netið úr aukaspyrnu rétt utan teigs. Var það annað mark Dags, þriðja mark Breiðabliks og staðan því orðin 3:2.

Vont varð verra fyrir Val á 62. mínútu, því þá fékk Sebastian Hedlund beint rautt spjald fyrir að taka Ísak Snær niður, þegar Blikinn var að sleppa einn í gegn.

Breiðablik nýtti sér liðsmuninn, því Dagur Dan skoraði aftur glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu á 86. mínútu. Markið var nánast alveg eins og annað markið hans.

Aðeins tveimur mínútum síðar bætti Viktor Karl Einarsson við fimmta markinu eftir slæm mistök hjá Aroni Jóhannssyni og stórsigur Breiðabliks raunin.

Valur 2:5 Breiðablik opna loka
90. mín. Sigurður Egill Lárusson (Valur) fær gult spjald Straujar Dag Dan harkalega.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert