Fengu þúsundasta stigið - Blikar og Víkingar deila markameti

Blikar fögnuðu Íslandsmeistaratitlinum vel og lengi í gær.
Blikar fögnuðu Íslandsmeistaratitlinum vel og lengi í gær. mbl.is/Óttar Geirsson

Íslandsmeistarar Breiðabliks luku keppni í Bestu deild karla í gær með því að ná í sitt þúsundasta stig í efstu deild karla á Íslandsmótinu.

Þeir gerðu reyndar einu betur því stig Blika eru orðin 1.001 frá því félagið lék fyrst í deildinni árið 1971. 

Breiðablik er áttunda félagið frá upphafi sem nær þúsund stigum í deildinni. KR er með 2.052 stig, Valur 1.930, ÍA 1.638, Fram 1.465, FH 1.199, Keflavík 1.196 og ÍBV 1.167 stig en þá eru stig fram að árinu 1983 framreiknuð með þremur stigum fyrir sigur. Þriggja stiga reglan var tekin upp árið 1984.

Breiðablik og Víkingur enduðu bæði með 66 mörk skoruð í deildinni og settu með því nýtt markamet. Fyrra metið áttu Skagamenn sem skoruðu 62 mörk í aðeins 18 leikjum árið 1993 en þeir voru þar til í ár eina liðið sem hafði skorað sextíu mörk í deildinni á einu tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert