Breiðablik lagði Val í rokinu á Hlíðarenda

Jason Daði Svanþórsson sækir að leikmönnum Vals.
Jason Daði Svanþórsson sækir að leikmönnum Vals. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breiðablik sótti þrjú stig á Hlíðarenda í kvöld er liðið lagði Val, 2:0, í Bestu deild karla í knattspyrnu.

Leikurinn einkenndist af hvassviðri sem var í Reykjavík í dag og kvöld en bæði lið áttu talsvert af misheppnuðum sendingum. Það var ein slík frá Damir Muminovic sem bjó til fyrsta færi leiksins en hann ætlaði þá að setja boltann til baka á Anton Ara Einarsson. Sendingin var hins vegar allt of laus og Tryggvi Hrafn Haraldsson komst inn í hana. Anton Ari var þó eldsnöggur út úr teignum og bjargaði vel, sem varð til þess að Blikar geystust upp völlinn og andartaki síðar var Gísli Eyjólfsson búinn að skora fyrsta markið. Hann var þá fyrstur á lausan bolta við miðlínu eftir slakan skalla Hauks Páls Sigurðssonar, tók á rás í átt að teignum og átti að lokum skot, sem fór af Hauki og í bláhornið.

Bæði lið komust í ágætis stöður það sem eftir var af hálfleiknum en hvorugu þeirra tókst að skora. Síðasta korter hálfleiksins eða svo var Valur talsvert betra liðið og skapaði sér nokkur hættuleg færi, en Guðmundur Andri Tryggvason átti m.a. skot í þverslána. Eftir tæplega 40 mínútur vildi Breiðablik fá rautt spjald á Aron Jóhannsson þegar hann virtist slá til Patriks Johannesen sem féll með tilþrifum, en Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, dómari leiksins, gaf honum réttilega gult spjald.

Blikar byrjuðu seinni hálfleikinn betur en fljótlega tóku Valsmenn völdin og fengu hættulegri færi. Aron Jóhannsson fékk gott skotfæri við vítateigslínu um miðjan hálfleikinn en skot hans var slakt og beint á Anton Ara.

Á síðustu 20 mínútum leiksins eða svo gerðist fátt markvert en Valsmönnum gekk illa að skapa sér góðar stöður til að reyna að jafna metin. Í uppbótartíma gerði varamaðurinn Stefán Ingi Sigurðarson svo út um leikinn en hann fékk þá sendingu frá öðrum varamanni, Ágústi Orra Þorsteinssyni, og kláraði vel fram hjá Frederik Schram.

Bæði lið eru því með þrjú stig að loknum tveimur umferðum en Valur vann ÍBV í fyrstu umferð á meðan Breiðablik tapaði fyrir HK.

Valur 0:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Uppbótartíminn verður fimm mínútur! Það er nóg eftir af þessu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert