Óskar ósáttur við umræðuna um Stefán: „Gjörsamlega galin“

Stefán Ingi Sigurðarson með boltann í leik gegn Víkingi.
Stefán Ingi Sigurðarson með boltann í leik gegn Víkingi. Ljósmynd/Arnþór Birkisson

Breiðablik vann góðan sigur á Val í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld, 2:0.

Stefán Ingi Sigurðarson kom inná hjá Breiðabliki og skoraði annan leikinn í röð. Óskar Hrafn Þorvaldssson, þjálfari liðsins, er hins vegar ekki ánægður með umfjöllunina sem hefur verið í kringum Stefán undanfarnar vikur þar sem gerðar hafa verið miklar væntingar til hans.

„Hann auðvitað nálgast byrjunarliðið en aftur, við þurfum að sýna betri frammistöðu. Hann skorar gott mark og allt það en hann, líkt og allir aðrir, þurfa að vera betri í öllum þáttum leiksins. Hann kemur inná þegar leikurinn er að springa upp og fær þar af leiðandi töluvert meira pláss en Patrik [Johannesen].

Stefán er bara flottur leikmaður og ég bið ykkur bara að slaka aðeins á og hætta að tala hann upp þannig að það myndist óþarfa pressa á hann. Hann er bara ungur leikmaður sem er að stíga sín fyrstu skref í Breiðabliki, búinn að vera úti í skóla í þrjú og hálft ár. Þið verðið bara að gefa honum frið til að þróast og þroskast, hann mun verða frábær leikmaður.

Mér finnst umræðan um hann galin. Gjörsamlega galin. Hún er keyrð áfram af mönnum sem ég veit ekki hvað gengur til. Flestir vita það að það síðasta sem ungir menn þurfa er að vera með það á herðunum að eiga að verða markakóngar og bera lið sem ætlar í toppbaráttuna á bakinu. Gefið honum tíma, hann er virkilega efnilegur leikmaður, frábær drengur sem leggur hart að sér alla daga. Fái hann tíma og réttu ábyrgðina mun hann blómstra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert